Spotify hefur harðlega gagnrýnt ný 27% gjöld sem bandaríski tæknirisinn Apple hefur byrjað að rukka í Bandaríkjunum. Apple tilkynnti á miðvikudaginn að það myndi leyfa forritafyrirtækjum að selja vörur sínar annars staðar en í App Store en aðeins ef þeir greiddu þóknun.

Sænska streymisfyrirtækið segir þetta vera svívirðilegt og sakar Apple um látlausa græðgi. Spotify hefur þegar hvatt bresk stjórnvöld til að koma í veg fyrir að sambærileg gjöld verði innheimt í Bretlandi.

Apple kynnti nýju gjöldin í Bandaríkjunum eftir langvarandi deilu við Epic Games, sem framleiðir meðal annars leikinn Fortnite. Apple hefur enn ekki svarað fyrirspurnum fréttamiðilsins BBC.

Hingað til hefur Apple rukkað stærstu framleiðendur smáforrita 30% þóknun til að notast við þetta kerfi. Smærri framleiðendur greiða um 15% og í kringum 85% allra framleiðenda greiða ekki neitt. Nýr úrskurður frá bandarískum dómstóli hefur hins vegar breytt þessu kerfi og mun Apple rukka alla framleiðendur 27% þóknun.

Spotify hefur áður fyrr gagnrýnt Apple vegna hárra gjalda en í október á síðasta ári sakaði það fyrirtækið um að hafa brjálæðislega mikla stjórn á Internetinu. Nú hefur Spoity hvatt bresk stjórnvöld til að grípa inn í.

„Stafrænir markaðir, samkeppnis- og neytendastofa Bretlands verður að binda enda á þessa stefnu, sem er í meginatriðum endurgerð á gjöldum Apple. Við hvetjum breska þingmenn eindregið til að samþykkja nýtt frumvarp til að koma í veg fyrir að Apple innleiði svipuð gjöld, sem mun hjálpa til við að skapa samkeppnishæfari tækniiðnað fyrir breska neytendur og fyrirtæki.“