Bandarísk flugmálayfirvöld hafa hafið nýja rannsókn á Boeing eftir að starfsmenn innan flugöryggiseftirlitsins sögðu að flugvélaframleiðandinn hafi hugsanlega ekki tryggt öryggi 787 Dreamliner-flugvéla sinna nægilega vel.

FAA rannsakar jafnframt hvort starfsfólk innan Boeing hafi falsað gögn en verið er að endurskoða allar 787 þotur sem verið er að framleiða.

Fréttamiðillinn BBC greinir frá þessu en Boeing hefur ekki viljað tjá sig um málið. Fyrirtækið mun engu að síður neyðast til að þróa sérstaka aðgerðaráætlun til að bregðast við þessum áhyggjum.

„Við fórum fljótt yfir málið og komumst að því að nokkrir aðilar hefðu brotið reglur fyrirtækisins með því að framkvæma ekki tilskilin próf, heldur skrá prófin eins og búið væri að framkvæma þau,“ skrifaði Scott Stocker, yfirmaður 787-deildarinnar, í tölvupósti til starfsmanna.

Málið er aðeins eitt af mörgum sem hafa hrjáð Boeing undanfarin misseri en nokkur óhöpp hafa átt sér stað á þessu ári, eða frá því hluti af skrokk vélar Alaska Airlines losnaði í miðju flugi í janúar. Þá tilkynnti Dave Calhoun í mars að hann myndi láta af störfum sem forstjóri fyrir lok árs.