„Verkefninu miðar vel,“ segir Torill Kleppe Kleven hjá norska félaginu Artec Aqua, sem stýrir uppbyggingu landeldisstöðvar íslenska félagsins Geo Salmo í Þorlákshöfn. Stöðin mun framleiða 24 þúsund tonn af laxi á ári þegar fullum afköstum er náð.

„Endanleg útfærsla stöðvarinnar hefur nú verið ákveðin í samkomulagi við Geo Salmo. Þróunarvinnan er því farin að snúast um að útbúa teikningar og huga að tæknilegri verkfræðilegum atriðum,“ útskýrir Torill, auk þess sem skipulagning byggingaframkvæmdanna sjálfra sé hafin.

Vonast er til að þær framkvæmdir geti hafist á þriðja fjórðungi þessa árs, en til verksins verða ráðnir undirverktakar bæði á Íslandi og víðar í Evrópu. „Fyrsta skref verður að grafa fyrir lögnum sem lagðar verða ofan í jörð til að veita inn sjávarvatni og undirbúa undirstöður og svo framvegis.“

Nánar er rætt við Torill í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudag, 4. maí.