Sam­tök at­vinnu­lífsins segja nú­verandi fjár­mála­á­ætlun Sigurðar Inga Jóhannes­sonar fjár­mála­ráð­herra með öllu ó­á­sættan­lega en gangi hún eftir hefur ríkis­sjóður verið rekinn með halla sam­fleytt í níu ár.

„Í gegnum tíðina hefur halla­rekstur verið regla frekar en undan­tekning í til­felli ríkis­sjóðs. Þrátt fyrir að nú sé undir­liggjandi rekstur ríkis­sjóðs kominn í jafn­vægi þá er ekki nóg að gert til að tryggja svig­rúm í rekstri til að takast á við fram­tíðar­á­föll,” segir í um­sögn SA um fjár­mála­á­ætlun.

SA benda á að hraður vöxtur hefur ein­kennt ís­lenska hag­kerfið frá heims­far­aldri og þótt enn sé nokkuð bjart yfir þá eru blikur á lofti og út­lit fyrir að senn hægi á.

Sam­hliða mikilli þenslu í hag­kerfinu á síðustu árum jókst verð­bólga til muna og náði há­marki í febrúar 2023 þegar hún mældist 10,2%. Síðan þá hefur verð­bólga verið á undan­haldi og mælist nú í kringum 6%.

„Hið opin­bera, ekki síst ríkis­sjóður, hefur notið góðs af þessum mikla vexti – hag­vexti sem reglu­lega reyndist meiri en spár höfðu gert ráð fyrir. Í ljósi þess að tekjur hins opin­bera eru að mestu leyti háðar um­svifum í hag­kerfinu hefur tekju­vöxtur einnig í­trekað reynst um­fram væntingar á um­liðnum árum. Sú þróun hefur þrátt fyrir allt ekki orðið til þess að loka því gati sem skapaðist í rekstri hins opin­bera á árum heims­far­aldurs. Þvert á móti var ekkert gefið eftir á út­gjalda­hliðinni og enn er út­lit fyrir á­fram­haldandi halla­rekstur þótt farið sé að sjást til lands.”

Sam­tökin fagna því þó að að­hald­stónn sé sleginn en betur má ef duga skal. Það fellur í skaut næstu ríkis­stjórnar að tryggja nærri 30 milljarða króna bata á rekstri ríkis­sjóðs árið 2030.

Á meðal að­gerða ríkis­stjórnarinnar til að vinna gegn verð­bólgu var m. a. að finna til­lögu um að flýta gildis­töku fjár­mála­reglna laga um opin­ber fjár­mál til ársins 2025. Segja Sam­tökin ljóst að horfið hafi verið frá þeirri stefnu.

„SA hafa á um­liðnum árum í­trekað bent á skort á að­haldi í rekstri ríkis­sjóðs og talað fyrir því að ó­væntum tekjum, skv. „tekju­froðu“, sé ekki varið til nýrra og varan­legra út­gjalda heldur í að brúa það gat sem myndaðist í rekstri ríkisins í heims­far­aldri. Dempun hag­sveiflunnar þurfi að ganga í báðar áttir og tryggja á ný svig­rúm hjá hinu opin­bera til að takast á við fram­tíðar á­föll í hag­kerfinu. At­huga­semdir sam­takanna, sem jafn­framt hafa endur­ómað álit Fjár­mála­ráðs, hafa fram að þessu verið að engu hafðar. „Að­hald“ hefur verið sótt á tekju­hlið með aukinni skatt­heimtu og tekju­froðu.”

Í greinar­gerð með fram­lagðri fjár­mála­á­ætlun er að mati SA að ein­hverju leyti sleginn nýr tónn.

„Að þessu sinni verður ekki annað séð en að aukin út­gjöld og ný verk­efni séu að uppi­stöðu til fjár­mögnuð með for­gangs­röðun og hag­ræðingu.”

Benda Sam­tökin á að verð­mæta­sköpun er undir­staða vel­ferðar­ríkis en setur því jafn­framt tak­mörk.

„Mikil­vægt er að hafa í huga að verð­mæta­sköpun er upp­spretta tekna hins opin­bera en hún er ekki ó­þrjótandi auð­lind.”

SA í­treka síðan þá af­stöðu sína að ekkert bendi til þess að nauð­syn­legt sé að auka skatt­heimtu hér á landi.

„Frá 2024 til 2029 er á­ætlað að heildar­tekjur ríkis­sjóðs aukist um alls 12% að teknu til­liti til verð­lags­breytinga. Skatt­tekjur aukast um 14% á sama tíma en sam­dráttur í á­ætluðum eigna­tekjum, þ. e. vaxta­tekjum og arð­greiðslum, upp á 16% dregur niður vöxt heildar­tekna. Heildar­út­gjöld vaxa hins vegar um nærri 7%. Vöxtur lands­fram­leiðslu á sama tíma er á­ætlaður rúm 13% á sama mæli­kvarða. Út­gjöld á mann lækka um 51 þúsund krónur ár­lega en tekjur aukast um 110 þúsund. Skatt­tekjur aukast aftur á móti um 138 þúsund krónur á hvern íbúa – að teknu til­liti til verð­lags­breytinga. Enn virðist plan stjórn­valda því vera að „vaxa út úr vandanum“, með dass af aukinni skatt­heimtu,” segir í um­sögn SA.

Nýtt tekju­öflunar­kerfi vegna um­ferðar og orku­skipta vegur hér þungt enda stefna stjórn­valda sú að þær tekjur nemi 1,7% af VLF.

Þær tekjur námu 1,3% af VLF árið 2023 og vantaði 17 milljarða upp á svo mark­miðinu yrði náð. SA bendir á að sú fjár­hæð sé e.t.v. ekki stór í sam­hengi ríkis­sjóðs sem hefur tekjur langt yfir 1.000 milljarða en í bók­haldi fyrir­tækja og heimila muni um minna.

„Skatt­heimta er enda ó­víða meiri en hér á landi. Sé vilji stjórn­valda að auka tekjur hins opin­bera er þeim í lófa lagt að skapa skil­yrði fyrir aukinni fram­leiðni og fjölgun verð­mætra starfa. Þaðan eiga tekjurnar rætur sínar að rekja og verður að gæta að því að veita ein­stak­lingum og fyrir­tækjum rými til vaxtar. Skatta­hækkanir skerða sam­keppnis­hæfni fyrir­tækja og leiða að endingu til minni fjár­festingar og þar með verð­mæta­sköpunar, hægja á fjölgun starfa og minnka skatt­stofn hins opin­bera.”

Hægt er að lesa um­sögn SA hér.