Sigurður Hilmarsson, fyrrverandi forstjóri Annata, var í Héraðsdómi Reykjaness í gær, sýknaður af kröfu hugbúnaðarfyrirtækisins um að greiða félaginu rúmar 30 milljónir króna vegna meints brots á skuldbindingum til varnar samkeppni eftir að hann lét af störfum.

Sigurður hóf störf hjá Annata í byrjun árs 2016 sem framkvæmdastjóri yfir starfsemi Annata við uppbyggingu á svonefndum CRM hluta Microsoft Dynamics 365 viðskiptalausnum. Annata hafði keypt félag stefnda, xRM Software, sem sérhæfði sig í CRM lausnum. Tilgangur Annata með kaupunum var í dómnum sagður vera að komast yfir þekkingu, breikka og stækka möguleika sína á því sviði, auk þess að viðhalda og byggja upp viðskiptasambönd.

Sigurði var sagt upp störfum hjá Annata í lok árs 2017, en hann var ráðinn forstjóri félagsins í byrjun sama árs. Gerður var starfslokasamningur við hann þar sem samið var um áframhaldandi launagreiðslur í gegnum sex mánaða uppsagnarfrest. Á sama tíma gerði Annata kröfur um að Sigurður myndi uppfylla ýmsar skuldbindingar til varnar samkeppni í tólf mánuði frá 30. júní 2018, til að mynda að hann hefji ekki starfsemi sem geti skaðað samkeppnisstöðu Annata.

Ólík túlkun á samkeppnisstöðu

Þann 1. apríl 2019 stofnaði Sigurður svo félagið Arango ehf. Tilgangur félagsins var ráðgjöf og þjónusta á sviði CRM hluta Microsoft Dynamics 365 lausna. Í rökstuðningi Annata fyrir stefnunni segir að með stofnun Aranjo hafi Sigurður hafið rekstur í beinni samkeppni við Annata. Starfsemin sé sú sama hjá félögunum tveimur, þ.e. þróun, ráðgjöf og þjónusta á lausnum byggða á Microsoft Dynamics 365 viðskiptalausnum.

Lögmaður Sigurðar benti hins vegar á að Microsoft Dynamics viðskiptalausnir væri stórt lausnarsvið. Þannig noti 80% af stórum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi slíkar lausnir og að nær öll hugbúnaðarfyrirtæki sérhæfi sig í þeim lausnum með einhverju móti. Jafnframt markaðssetji Arango til innlendra aðila en Annata til erlendra bíla- og tækjaframleiðenda og því sé ekki um að ræða sömu viðskiptavini hjá félögunum tveimur. Þá hafi Arango ekki skaðað samkeppnisstöðu Annata þar sem Arango hefði ekki innt af hendi neina þjónustu fyrir viðskiptavini Annata á tímabili samkeppnisbannsins.

Skuldbindingum til varnar samkeppni vikið til hliðar

Í dómi Héraðsdóms segir það vera ófrávíkjanlega reglu að ef starfsmaður tekur á sig skuldbindingu varðandi samkeppni sem á að gilda eftir að ráðningu er lokið, að þá er hún ógild ef honum er sagt upp án þess að hann gefi nægilega ástæðu til þess sjálfur, eða þá að hann fari sjálfur löglega úr stöðunni.

Í niðurstöðu dómsins segir að það komi hvergi fram á hvaða forsendum Sigurði var sagt upp eða að hann hafi sjálfur gefið nægilega ástæðu. Af skýrslu Annata fyrir dómi mætti helst ráða að hann hefði ekki verið talinn rétt aðilinn til að stýra alþjóðlegu fyrirtæki. Niðurstaða dómara er því sú að þær skuldbindingar Sigurðar til varnar samkeppni, sem komu fram í ráðningarsamningi, hafi verið ógildar þegar honum var sagt upp störfum.

Þar af leiðandi var skuldbindingum Sigurðar til varnar samkeppni vikið til hliðar og Sigurður sýknaður af fjárkröfu Annata upp á 30 milljónir króna. Jafnframt var Annata gert að greiða 1.240.000 króna málskostnað.