Sýn og Ljósleiðarinn tilkynntu eftir lokun markaða í dag um samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála samninga sem lúta annars vegar að sölu á stofnneti Sýnar til Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, og hins vegar að þjónustusamningi milli aðila til tíu ára. Miðað er við að endanlegir samningar liggir fyrir eigi síðar en 15. desember næstkomandi.

Samið hefur verið um kaupverð að fjárhæð 3 milljarðar króna. Sýn áætlar að væntur söluhagnaður nemi yfir 2 milljörðum króna „og að hagkvæmni náist fram í rekstri. Viðskiptin munu því styrkja efnahag og lausafjárstöðu félagsins enn frekar.“

Sýn segir að nánari grein verði gerð fyrir reikningshaldslegri meðferð viðskiptanna þegar endanlegur kaup- og þjónustusamningur liggur fyrir. Tekið er fram að samkomulagið sé með fyrirvara um fjármögnun, áreiðanleikakönnun og að Samkeppniseftirlitið samþykki endanlega kaup- og þjónustusamninga um viðskiptin.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans:

„Sýn hefur alla tíð verið einn mikilvægasti viðskiptavinur Ljósleiðarans. Með þessu samkomulagi bætist mikilvægt púsl í þá framtíðarsýn sem við Ljósleiðarafólk höfum verið að vinna að um nokkurra ára skeið – að byggja upp nýjan landshring og að treysta tekjurnar af þeirri fjárfestingu.

Í tengslum við þau áform höfum við þegar kynnt þjónustusamninga við Nova og Farice og samning við utanríkisráðuneytið um afnot af hluta hins svokallaða NATO-strengs umhverfis landið.

Við Ljósleiðarafólk höfum um hríð rætt þörfina á nýjum landshring fjarskipta til að efla fjarskiptaöryggi í landinu, tryggja aðgang sem flestra heimila að ljósleiðaratengingum, vera tilbúin fyrir aukinn gagnaflutning um 5G og farsímakerfi framtíðar, tryggja öruggt farsímasamband meðfram þjóðvegum og síðast en ekki síst að heilbrigð samkeppni ríki á fjarskiptamarkaði. “