Þórður Gunnarsson óskar eftir stuðningi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna í maí. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þórður er 37 ára og hefur lokið grunnnámi í hagfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í orkuhagfræði við BI Norwegian School of Management í Osló og IFP Energies Nouvelles í París.

Hann hefur starfað á ritstjórnum Morgunblaðsins, Viðskiptablaðsins og Fréttablaðsins. Hann vann einnig hjá MP banka (nú Kvika) og dótturfélögum hans um nokkurra ára skeið. Jafnframt starfaði Þórður í London í tæplega fimm ár, lengst hjá Standard & Poors Global við greiningar á alþjóðlegum orku- og hrávörumörkuðum.

Í tilkynningu segir Þórður að uppbygging almenningssamganga sé góðra gjalda verð og skynsamleg en að það ætti ekki að vera alfarið á kostnað annars konar samgangna. Þórður bætir við að borgin ætti að draga sig úr rekstri fyrirtækja á samkeppnismarkaði. „Erfitt verður að ráðast í stórtæka uppbyggingu innviða á meðan fjárhagur borgarsjóðs er jafn illa staddur og raun ber vitni. Til að Reykjavíkurborg geti sótt fram af krafti á næstum árum þarf að lækka skuldir samstæðu borgarinnar. Einfaldasta leiðin til þess er að Reykjavíkurborg dragi sig úr rekstri fyrirtækja í samkeppni við einkafyrirtæki,“ segir Þórður.

„Með aðkomu einkafjárfesta að slíkum fyrirtækjum væri þá samhliða hægt að losa fjármuni bundna í atvinnurekstri og lækka skuldir borgarinnar. Skemmst er að minnast Gagnaveitu Reykjavíkur í þeim efnum. Einnig mætti nefna Sorpu og Faxaflóahafnir í þessu samhengi," bætir Þórður við.

Önnur baráttumál Þórðar eru lækkun álaga á atvinnulíf í borginni, faglegri stjórnun Orkuveitunnar, að stöðva hina gríðarmiklu fjölgun starfsfólks hjá borginni og að byggja upp nýja skóla í nýjum hverfum til að bæta aðbúnað barna og unglinga við nám og frístundir.