Seðla­banki Banda­ríkjanna á­kvað í gær að halda stýri­vöxtum ó­breyttum í 5,25% og 5,5% en megin­vextir bankans hafa ekki verið hærri í tvo ára­tugi.

Jerome Powell seðla­banka­stjóri sagðir á blaða­manna­fundi í gær að bak­slag í bar­áttunni við verð­bólguna sé þess valdandi að vextir verði ó­breyttir lengur en vonir stóðu til. Hann gaf þó í skyn að vaxta­hækkunar­ferli bankans væri lokið.

„Það mun lík­lega taka okkur lengri tíma að treysta að við séum á sjálf­bærri veg­ferð,“ sagði Powell en The Wall Street Journal greinir frá.

Hann sagðist bjart­sýnn á að verð­bólgan myndi lækka í ár en þó ekki jafn bjart­sýnn og hann var um ára­mót. Hins vegar þyrfti mikið að breytast svo bankinn myndi byrja að í­huga að hækka vexti að nýju.

„Það er eitt­hvað sem ég held að við séum ekki að fara sjá en svarið við þeirri spurningu mun leynast í hag­tölum,“ sagði Powell.

Hluta­bréfa­vísi­tölur í Banda­ríkjunum hækkuðu snögg­lega í gær eftir á­kvörðun bankans var kynnt sem var þó fyrir­séð. S&P 500 vísi­talan hækkaði um 1,2% en endaði þó 0,3% lægri en frá dagsloka­gengi þriðju­dagsins.

Vaxta­hækkunar­ferli Seðla­bankans hófst um 2022 en vextir bankans voru fram að því ná­lægt núlli.

Þrjá­tíu ára hús­næðis­lán með föstum vöxtum stóð í 7,17% í síðustu sem er hækkun úr 6,61% í byrjun árs, sam­kvæmt Freddi­e Mac.

Vísi­tala neyslu­verðs í Banda­ríkjunum hækkaði meira en búist var við í síðasta mánuði og mældist árs­verð­bólga 3,5%.

Kjarna­verð­bólga, sem undan­skilur sveiflu­kennda vöru­flokka í orku- og mat­væla­geiranum, mældist 2,8% í síðasta mánuði sem er lækkun úr 4,8% í mars 2023.

Hins vegar hefur kjarna­verð­bólgan hækkað um 3% á árs­grund­velli síðustu sex mánuði eftir að hafa hækkað 1,9% sex mánuðina þar á undan og veldur það á­hyggjum.