Ríflega þriðjungur af 400 stærstu fyrirtækjum landsins býr sem stendur við skort á starfsfólki. Skorturinn er mestur í flutningum og ferðaþjónustu en þar segist meira en helmingur vera í slíkri stöðu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum könnunar Gallup sem unnin er ársfjórðungslega fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Sem kunnugt er var útlitið ekki bjart fyrir rúmu ári þegar pestin náði ströndum landsins. Var staðan enda sú að nær enginn taldi að aðstæður væru góðar. Nú telur tæplega helmingur að aðstæður séu góðar, 43% segja hvorki né en innan við tíu prósent að staðan sé enn slæm. Þá telja um 60% stjórnenda félaganna að aðstæðurnar muni halda áfram að batna á næsta hálfa árinu.

Hjá fyrirtækjunum 400 starfa um 28 þúsund manns og býst þriðjungur fyrirtækjanna við því að fjölga starfsmönnum. Níu prósent hafa í hyggju að fækka fólki en afgangurinn að fjöldi muni standa í stað. Áætluð fjölgun er samanlagt um 2.300 störf hjá þeim sem slíkt áforma en fækkunin mun nema um 600 störfum. Stjórnendur í sjávarútvegi og fjármálageiranum sjá fram á minnsta fjölgun en meiri vöntun er í þjónustu, byggingarframkvæmdum og iðnaði.

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs lækka um 50 punkta milli kannanna og nema nú 3%. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru á sama stað og hafa verið þar undanfarin tvö ár. Stjórnendurnir áætla að á næstu sex mánuðum muni verð á vörum og þjónustu þeirra hækka um 2,3% en verð á aðföngum um 4,2%.

„Stjórnendur eru á einu máli um þá þætti sem mest áhrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á næstu 6 mánuðum. Hækkun launakostnaðar vegur langþyngst þar sem 53% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni og 23% til viðbótar setja hann í annað sæti. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 30% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif og 26% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna,“ segir í tilkynningu á vef SA.

Tæplega helmingur stjórnenda býst við því að hagnaður aukist á árinu samanborið við árið í fyrra en tæplega fimmtungur að hagnaður dragist saman. Rétt rúmlega þriðjungur býst við svipuðum hagnaði. Aukna hagnaðarvon má merkja í öllum atvinnugreinum sem könnunin tekur til.