Fyrirtækið Riot Games, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins Tencent Holdings, hefur tilkynnt að það muni segja upp 530 manns á heimsvísu en það samsvarar um 11% af öllu vinnuafli fyrirtækisins.

Dylan Jadeja, framkvæmdastjóri Riot Games, segir að rekstrarkostnaður hafi farið upp úr öllu valdi en það verða að öllum líkindum starfsmenn utan höfuðstöðva fyrirtækisins, sem er staðsett í Los Angeles, sem koma til með missa vinnuna.

Netleikjafyrirtækið segir að það muni nú einbeita sér að svokölluðum live-leikjum sem það hefur á sínum snærum eins og Leage of Legends, Valorant, Teamfight Tactics og Wild Rift. Riot Games er ekki fyrsta tölvuleikjafyrirtækið sem hefur þurft að fækka starfsfólki.

Á síðasta ári neyddist fyrirtækið ByteDance einnig til að segja upp fólki og þurfti Epic Games, framleiðandi Forntie, þar að auki að grípa til svipaðra aðgerða. Ubisoft, sem framleiðir Assasin‘s Creed og Niantic, sem framleiðir Pokémon Go, tilkynntu líka um niðurskurð.

Þegar heimsfaraldur skall á fóru tölvuleikjafyrirtæki í fjöldaráðningar til að geta annað eftirspurnina sem myndaðist en Riot Games hafði meðal annars tvöfaldað starfsmannafjölda sinn á síðustu árum. Eftir að samkomutakmörkunum var aflétt og verðbólga skall á fór að hægja á sölu nýrra tölvuleikja með tilheyrandi breytingum.

„Í dag erum við fyrirtæki án nægjanlegrar einbeitingar, og einfaldlega sagt, við erum með of margt í gangi,“ segir Jadeja.