Íslenska netöryggisfyrirtækið Nanitor hefur tryggt sér 220 milljóna króna fjármögnun frá Brunni með þátttöku einkafjárfesta. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fjármagnið verður nýtt til stækkunar á erlendum mörkuðum en fyrir eru viðskiptavinir Nanitor meðal annars Booking.com, Rentalcars.com, Birmingham City Council, Oman Arab Bank, Festi, Rarik og Valitor.

Nanitor er leiðandi í þróun netöryggislausna og sérhæfir sig í rauntímagreiningu á heildstæðu grunnöryggi tölvukerfa fyrirtækja með því markmiði að bæta öryggisstöðu upplýsingakerfa. Með þessari virku vöktun er fylgst með öryggisstillingum, þekktum veikleikum og hugbúnaðaruppfærslum tölvukerfa en þannig er komið í veg fyrir að skaði hljótist af mögulegum netárásum.

Sérstaða Nanitor er snjallgreiningarlausnin, Nanitor Discovery Engine™ sem uppsett er á netþjónum, útstöðvum, netbúnaði og gagnagrunnum en lausnin birtir í rauntímastöðuyfirlit á skilvirkan hátt í miðlægu stjórnborði. Þetta stjórnborð gerir stjórnendum fyrirtækja og netöyggis auðvelt að hafa yfirsýn, bregðast markvisst og hratt við mögulegri vá.

Sigurður Arnljótsson, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures:

„Lausn Nanitor er einstök á heimsvísu og gerir fyrirtækjum stórum sem smáum kleift að verjast mögulegum netárásum á mjög skilvirkan og einfaldan hátt. Áður fyrr voru netöryggislausnir af þessum gæðaflokki eingöngu aðgengilegar erlendum stjónvöldum og stærri fyrirtækjum. Í þessum málaflokki eru netöryggismál oft keyrð áfram af viðbragði við utankomandi vá en Nanitor lausnin snýr þessu við og byggir upp kerfislegt grunnnetöryggi sem eykur mótstöðuafl gegn yfirvofandi netárásum.“

Jón Fannar Karlsson Taylor, forstjóri Nanitor:

„Viðskiptatækifæri Nanitor er að fyrirtæki og stjórnvöld erlendis hafa gert sér grein fyrir netöryggisvánni og eru að fjárfesta gríðarlega í kerfislægu netöryggi. Þessi fjármögnun gerir okkur kleift að byggja upp frekar starfssemi okkar erlendis og takast á við stækkun félagsins næstu misseri.“