Tyrkneska heimsendingarfyrirtækið Getir hefur tilkynnt að það muni yfirgefa Bretland, Evrópu og Bandaríkin til að einbeita sér að heimamarkaði sínum þar sem megnið af tekjum þess kemur.

Getir var stofnað árið 2015 og fór fljótlega að færa út kvíarnar um Evrópu en vangaveltur hafa verið á lofti um starfsemi fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum. Að sögn BBC koma rétt rúmlega 7% af tekjum þess frá þeim löndum sem fyrirtækið er nú að yfirgefa.

Fyrirtækið segist sjá flesta möguleika með langtímavexti í Tyrklandi en Getir kom til að mynda til Bretlands fyrst árið 2021. Á innan við nokkrum árum hækkaði verðmæti fyrirtækisins þar um fleiri milljarða punda.

Þegar heimsfaraldur skall á byrjaði Getir, með sína áberandi gulu og fjólubláu liti, að vaxa þar sem margir vildu frekar fá vörur sínar heimsendar. Einn af sölupunktum fyrirtækisins var að afhenda mat og drykk á hlaupahjólum á innan við 20 mínútum.

FreshDirect, dótturfyrirtæki Getir í Bandaríkjunum, mun hins vegar halda áfram starfsemi sinni og hefur einnig fengið til sín fjárfesta frá fjárfestingasjóðnum Mubadala frá Abu Dhabi og bandaríska fyrirtækinu G Squared.

Getir hefur þegar hætt starfsemi sinni á Ítalíu, Spáni, Frakklandi og Portúgal en á einu tímabili störfuðu um 23.000 manns hjá fyrirtækinu í Evrópu.