Heiðar Guðjónsson er að kveðja fjarskiptafyrirtækið Sýn eftir að hafa verði í lykilhlutverki hjá félaginu í áratug — lengst af sem stærsti hluthafinn, stjórnarformaður í fimm ár og forstjóri frá árinu 2019.

Heiðar seldi í lok júlí öll hlutabréf sín í fyrirtækinu fyrir rúma tvo milljarða króna og hyggst láta af störfum sem forstjóri að læknisráði. Honum er uppálagt að taka því rólega næstu mánuði.

Þó að Heiðar hafi sterkar skoðanir á landsmálunum þá segist hann ekki hafa neinn áhuga á að fara sjálfur í framboð. „Mér finnst pólitíkinni takast illa til að horfa á aðalatriði og verja of mikilli orku í gæluverkefni sem tíðarandinn kallar fram í það og það skiptið. Ég hef suma grunaða um að nota hið ómerkilega klækjabragð almannatengsla „if you can‘t convince them, confuse them!““

Þar hætti stjórnmálamönnum um of við að eltast við umræðuna á samfélagsmiðlum. Hann nefnir sem dæmi hve mikið af þjóðmálaumræðunni fari í að ræða launabil og eignadreifingu. „Sama hvaða aðferðum er beitt sýna allar mælingar að ójöfnuður á Íslandi er með því allra lægsta sem þekkist í heiminum. Laun á Íslandi eru einnig gríðarlega há í öllum alþjóðlegum samanburði. Íslendingar hafa það því mjög gott. Það er nær að ræða um spennandi framtíð frekar en stöðuna í dag.“

Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.