He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, segir það vera undir Íslendingum komið hver næstu skref verði í samskiptum Íslands og Kína. Hann segir Belti og braut samstarfið vera öllum þjóðum heimsins til bóta en bæði Ísland og Kína séu sjálfstæðar þjóðir sem þurfi að ákveða eigin framtíð.

Kínverska sendiráðið á Íslandi hélt í gær hádegisverð til heiðurs íslenskum fjölmiðlum þar sem rætt var um samstarf þjóðanna. Farið var yfir ýmis málefni, þar á meðal Belti og braut samstarfið, viðskiptatengsl og bein flug milli Íslands og Kína.

„Ég held að frá fyrsta degi hafi hönnun samstarfsins verið þannig hagað að þetta ætti að vera opinn vettvangur fyrir allar þjóðir og allar stofnanir. Við viljum tryggja að heimsbúar geti samtengst og ég held að þetta samstarf muni þjóna öllum heiminum,“ segir He.

Hann bætir við að Kína sé staðráðið í skuldbindingu sinni gagnvart Belti og braut samstarfinu og muni ekki láta orðróma né vangaveltur fæla sig frá því að gera það sem er rétt fyrir heiminn. „Við þurfum auðvitað að skilja þessi áhyggjuefni í slíku alþjóðlegu pólitísku samhengi, en það er undir Íslandi komið sem sjálfstæðri þjóð að ákveða hver næstu skref verða.“

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að Guido Crosetto, varnarmálaráðherra Ítalíu, hafi gagnrýnt ákvörðun Ítala um að ganga í Belti og braut samstarfið árið 2019 og sagði ákvörðunina hafa verið „óundirbúna og hryllilega“. Ítalía varð fyrsta G7 ríkið til að ganga í samstarfið og var sú ákvörðun harðlega gagnrýnd af bæði Bandaríkjamönnum og Evrópusambandinu á þeim tíma.

„Íslendingar og Kínverjar hafa líka átt gott samstarf sem hefur skilað hagnaði“

Ráðherrann sagði í samtali við ítalska dagblaðið Corriere della Sera að samstarfið hafi lítið gert til að auka útflutning frá Ítalíu til Kína og að Kína sæti uppi sem eini sigurvegarinn í samstarfinu.

Sendiherrann segir samstarfið vissulega vera flókið, en Íslendingar búi yfir miklum möguleikum á kínverskum markaði. Hann segir einn stærsta kost þess að viðhalda samstarfi við þjóð eins og Kína vera þá að þjóðin sé stöðugt að vaxa.

„Kína er dæmi um þjóð sem leitast við að fjárfesta í endurnýjanlegri orku. Það er ástæða þess að kunnátta ykkar í þeim málum er Kínverjum svo mikilvæg. Við viljum ekki búa við alla þessa mengun. Íslendingar og Kínverjar hafa líka átt gott samstarf sem hefur skilað hagnaði og það kemur að því að þið munið flytja út vörur ykkar, ekki bara lambakjöt, heldur líka kunnáttu og hugbúnað.“