Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra ORF líftækni, segir að fyrirtækið sé vel í stakk búið að haldast við núverandi framleiðsluáætlun en hluti af stefnu ORF sé að eiga umframmagn fræja til ræktunar.

ORF líftækni rekur gróðurhús skammt frá Grindavík sem liggur um þessar mundir beint á sprungusvæðinu. Teymi hennar fékk leyfi til fara aftur í gróðurhúsið á sunnudaginn ásamt Björgunarsveitarfólki til að bjarga því sem hægt var að bjarga.

„Við fórum til að bjarga bæði útsáningarfræjum og uppskornum fræjum. Við vorum hins vegar búin að innleiða hertar öryggisreglur undanfarnar vikur eins og hjálmaskyldu þar sem við vorum komin á óvissustig,“ segir Berglind.

Hún segir að gróðurhúsið við Grindavík einblíni aðallega á að þróa ný afbrigði en 95% af framleiðsluræktuninni fer í Kanada. Það sé þá mikilvægt að hafa umframmagn því um sé að ræða lifandi plöntur og segir Berglind að það geti alltaf komið upp stormar og annað.

Þegar starfsfólk kom til að sækja bæði útsáningarfræ og uppskorin mættu þau brotnar rúður og og sprungur í gólfinu. Berglind segir að ORF sé að vísu vel tryggt en mesta tapið sé ekki endilega mælt í fjármagni, heldur í tíma. „Við erum með plöntur þarna inni sem fá vatn þangað til á morgun en þá tæmist vökvunarkerfið, við fengum nefnilega aðeins einn og hálfan tíma til að fylla á kerfið.“

Berglind segir þó að fyrirtækið sé að skoða verstu mögulegu sviðsmynd sem feli meðal annars í sér að gróðurhúsið verði ónýtt og að ekki sé lengur hægt að endurbyggja það á sama stað.

„Við erum bara í því núna að undirbúa og forgangsraða og ef við fáum að fara á morgun að sækja verðmætin þá fer líka eftir því hversu einfalt þau eru að taka. Þetta eru náttúrulega plöntur í löngum rennum sem þarf að saga í sundur, þannig við erum í dag bara að skipuleggja.“