Eftir öfluga byrjun á árinu hefur hluta­bréfa­markaðurinn hér­lendis gefið eftir síðustu tvo viðskiptadaga. Úr­vals­vísi­talan OMXI 15 lækkaði um 1,5% í við­skiptum dagsins og hefur því lækkað um tæp 2% síðustu tvo daga.

Hluta­bréf í Al­vot­ech lækkuðu einnig annan daginn í röð en fé­lagið til­kynnti fyrir opnun markaða nú að fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins hafi veitt markaðs­leyfi fyrir Uzpru­vo, líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu Al­vot­ech við Stelara. Lyfið er eitt af tíu mest seldu lyfjum Evrópu. Ár­legar tekjur af sölu þess á Evrópu­markaði nema um 380 milljörðum króna.

Gengi Al­vot­ech hafði hækkað um 40% síðast­liðinn mánuð en lækkaði um tæp 5% síðast­liðna tvo daga

Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka lækkaði mest er gengið fór niður um tæp 3% í viðskiptum dagsins.

Dagsloka­gengið var 120 krónur sem er þó hærra en út­boðs­gengið í út­boði Banka­sýslunnar en hluta­bréf bankans eyddu stórum hluta síðasta árs vel undir út­boðs­genginu.

Gengi Marels lækkaði um 2% í 300 milljón króna veltu og var dagsloka­gengið 458 krónur.

Ekkert fé­lag hækkaði meira en 1% en gengi Brims og Símans fóru upp um hálft prósent í um 100 milljón króna veltu hvor. Heildar­velta á markaði var 4,6 milljarðar.