Árið 2022 var líflegt á fjármálamarkaði sem og óskráða markaðnum, og var almennt mikill viðskiptavilji. Þetta segir Ellert Arnarson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans. Bókfært virði útlána til viðskiptavina Landsbankans jókst um 157 milljarða króna á liðnu ári og var vöxtur bæði á útlánum til fyrirtækja og einstaklinga.

„Þetta var almennt mjög gott ár á markaðnum og klárlega með okkar betri árum. Félög voru að leitast eftir skráningu á markað og voru ýmist í fjárfestingum eða í leit að fjármagni. Þá var nokkuð um fyrirtækjasölur, samruna og fleira í þeim dúr,“ segir Ellert og bætir við að mikinn viðskiptavilja á liðnu ári megi ef til vill rekja til lágs vaxtastigs í sögulegu tilliti.

Ellert Arnarson, forstöðmaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans, segir mikil tækifæri til vaxtar í ferðaþjónustu.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Hann sér mikil tækifæri í samrunum fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem mörg hver hafi komið viðkvæm út úr faraldrinum.

„Ýmis ferðaþjónustufyrirtæki komu viðkvæm út úr kórónuveirufaraldrinum. Mörg þeirra horfa nú til mögulegs samruna og sé ég mikil tækifæri í þeim efnum. Við sjáum þessa þróun eiga sér stað á fjármálamarkaði núna með mögulegum samruna Kviku og Íslandsbanka annars vegar og Fossa og VÍS hins vegar. Það hefur hleypt lífi í markaðinn.“

Nánar er rætt við Ellert í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.