Stjórn og stjórnendur Félagsbústaða, dótturfélags Reykjavíkurborgar, lýsa yfir áhyggjum af fjárhagsstöðu félagsins í nýbirtum ársreikningi. Í ljósi þess að velferðarráð borgarinnar hafnaði tillögu um að hækka leiguverð um 1,1% umfram verðlag telja stjórnendur að bregðast þurfi við stöðunni með ýmsum hagræðingaraðgerðum.

„Langtímaáætlanir um rekstur og sjóðstreymi Félagsbústaða bera með sér að félagið mun ekki geta staðið undir aukinni greiðslubyrði lána sem tekin eru til fjármögnunar endurbóta og meiriháttar viðhalds eins og sakir standa,“ segir í skýrslu stjórnar.

Félagsbústaðir leigja út um um 3.100 íbúðir en umfang leigurekstrar félagsins miðar við húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar þar sem kveðið er á um að 5% íbúðarhúsnæðis í borginni sé félagslegt leiguhúsnæði.

Vantaði 400 milljónir upp á um áramótin

Viðskiptablaðið greindi frá því í október síðastliðnum að Félagsbústaðir hefðu áform um að hækka leiguverð umfram verðlag í ár til að tryggja að leiguverð standi undir rekstrarkostnaði og afborgunum lána til framtíðar.

Í nýjum ársreikningi kemur fram að eftir fyrsta ársfjórðung 2023 hafi legið fyrir uppfærðar áætlanir um viðhaldskostnað, breyttar forsendur um efnahagsþróun og þyngri kostnaðar við standsetningar. Í kjölfarið var fjárhagsáætlun 2023 endurskoðuð og leiddi það í ljós að nokkuð vantaði upp á að markmið um fjárhagslega sjálfbærni næðust á árinu.

„Niðurstaða ársins sýnir að tæpar 400 milljónir króna vantar upp á í árslok til að veltufé frá rekstri nægi fyrir afborgunum langtímalána,“ segir í skýrslu stjórnar.

Velferðarráð hafnaði tillögu um hækkun leiguverðs

Samhliða uppfærslu á leiguverðsgrunni á fyrri hluta árs 2023 lagði stjórn félagsins til hækkun leiguverðs um 1,1%. Greint er frá því í ársreikningnum að tillagan hafi ekki fengið brautargengi í velferðarráði.

„Stjórn og stjórnendur hafa lýst áhyggjum af stöðunni og [að] brugðist [sé] við með ýmsum hagræðingaraðgerðum,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi Félagsbústaða.

Sérfræðingar segja þörf á verulegri tekjuaukningu

Fram kemur að fengnir voru óháðir sérfræðingar til þess að leggja mat á rekstrar- og fjárfestingagetu Félagsbústaða til næstu ára með hliðsjón af núverandi skuldbindingum og viðhalds- og uppbyggingaráætlunum eignasafnsins.

„Niðurstaðan leiddi í ljós að tekjur þurfi að aukast umtalsvert umfram almennar verðlagshækkanir til að sjálfbærniviðmiðum sé náð.“

Borgarstjórn var reglulega upplýst um stöðuna og skipaði Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, starfshóp í ágúst. Hlutverk hópsins var að greina stöðuna og koma með tillögur að viðbrögðum. Hópurinn mun skila niðurstöðum í þessum mánuði.

„Áfram verður unnið að málinu í samvinnu við Reykjavíkurborg til að tryggja að rekstur Félagsbústaða verði sjálfbær til framtíðar.“

Hagnaður dróst saman um 15 milljarða

Félagsbústaðir högnuðust um 1,4 milljarða króna á árinu 2023 samanborið við 16,5 milljarða hagnað árið áður. Breytingin skýrist nær alfarið af umtalsvart minni matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam 4,7 milljörðum í fyrra samanborið við 20,0 milljarða árið 2022.

Rekstrartekjur Félagsbústaða jukust um 12,6% milli ára og námu 6,5 milljörðum. Rekstrargjöld jukust hins vegar um 23,7% og námu 4,1 milljarði króna, sem er 6,4% umfram það sem áætlun ársins gerði ráð fyrir. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu dróst því saman um 2,5% milli ára og nam tæplega 2,4 milljörðum í fyrra.

Hrein fjármagnsgjöld drógust lítillega saman og námu 5,7 milljörðum króna í fyrra. Í skýrslu stjórnar kemur fram að félagið gaf ekki út skuldabréf á markaði á síðasta ári til þess að fjármagna fjárfestingar sem námu 3.270 milljónir króna heldur voru þær fjármagnaðar með stofnframlögum og bankaláni frá Íslandsbanka.

Eignir Félagsbústaða voru bókfærðar á 158,6 milljarða króna í árslok 2023, samanborið við 149,4 milljarða árið áður. Eigið fé var um 85,2 milljarðar og eiginfjárhlutfall 53,7% samanborið við 56,1% árið áður.