Verðbólga í Frakklandi jókst á milli nóvember og desember úr 3,9% í 4,1%. Verðbólgutölurnar sem voru birtar í morgun voru í samræmi við spár greiningaraðila.

Í umfjöllun Bloomberg segir að aukna verðbólgu megi rekja til verðhækkana í þjónustugeirum ásamt því að orkuverð tók stökk eftir að stjórnvöld drógu til baka stuðning til heimili á orkumarkaði.

Á morgun verða birtar verðbólgutölur fyrir evrusvæðið. Væntingar eru um að verðbólga hafi aukist í álfunni eftir að dregist töluvert saman á síðustu mánuðum. Síðar í dag verða birtar verðbólgutölur í Þýskalandi en hagfræðingar gera ráð fyrir að verðbólga verði um 3,8% í desember samanborið við 2,3% í nóvember.

Aukin verðbólga á evrusvæðinu, sem talin er líkleg m.a. þar sem fleiri Evrópuríki eru byrjuð að draga úr niðurgreiðslum á gas-, raforku- og matvælaverði, kann að draga úr væntingum um að Seðlabanki Evrópu ráðist í vaxtalækkanir strax í mars næstkomandi eins og ýmsir markaðsaðilar eru farnir að vonast eftir.