Sýningin Verk og vit verður haldin í fimmta sinn dagana 24. - 27. mars 2022 í Laugardalshöll. Rúmlega hundrað sýnendur munu þar kynna starfsemi sína, nýjungar, vörur og þjónustu. Sýningin féll niður árið 2020 og 2021 vegna sóttvarnaraðgerða en snýr nú aftur.

Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Verk og vit, segir sýninguna hafa sannað sig sem mikilvægan vettvang fyrir aðila í bygginga- og mannvirkjageiranum til að hittast, styrkja viðskiptasambönd og afla nýrra, kynna vörur og þjónustu og nýjungar, ásamt því að ræða málin. „Nú er góður tími fyrir fyrirtæki að sækja fram, þétta raðirnar og setjast niður með núverandi og nýjum viðskiptavinum og eiga samtal um verkefnin sem framundan eru," segir Áslaug.

Sem fyrr er sýningin ætluð fagaðilum á sviði byggingariðnaðar, skipulagsmála og mannvirkjagerðar. Meðal sýnenda eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, skólar, fjármála-, ráðgjafa-, og hugbúnaðarfyrirtæki, sveitarfélög, tækjaleigur svo eitthvað sé nefnt. Þá gefst einnig almenningi og nemendum kostur á að kynna sér þessar mikilvægu atvinnugreinar þessa helgi.

Miðasala fyrir fagaðila og aðra gesti er þegar hafin á verkogvit.is og tix.is. AP almannatengsl er framkvæmdaraðili sýningarinnar en samstarfsaðilar eru; háskóla-, iðnaðar, - og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn. Sýningin verður opin fagaðilum á fimmtudegi og föstudegi og almenningur verður síðan boðinn velkominn á laugardag og sunnudag.