Demókratar í báðum deildum bandaríska þingsins hafa lagt fram frumvarp sem þvinga myndi umsvifamikla eigendur einbýlishúsa til að selja þau til heimila.

Auk hugsanlegrar alríkislöggjafar hafa þingmenn nokkurra ríkja og frá báðum flokkum lagt til löggjöf með sama markmiði, meðal annars repúblíkani í Ohio-ríki sem vill beita þungri skattlagningu til að úthýsa stofnanafjárfestum og fyrirtækjum þeirra af íbúðamarkaði. Meðal annarra ríkja þar sem sambærileg löggjöf er nú á dagskrá má nefna Nebraska, New York, Minnesota og Norður-Karólínu. Þingfulltrúarnir segja ásælni fjárfesta í íbúðarhús, sér í lagi einbýli, eiga stóran þátt í þeim framboðsskorti sem ríkt hafi á þeim markaði, með tilheyrandi verðhækkunum. Fyrstu kaupendur eigi þar sérstaklega undir högg að sækja og megi sín lítils gegn fjárhagslegu ofurefli Wall Street.