Hugbúnaðarfyrirtækið Cariad kynnti til sögunnar nýja snjallforritaverslun fyrir bíla í Volkswagen samstæðunni á „Mobile World Congress 2023“ í Barcelona. Vivaldi vafrinn verður í boði þar. Vafrinn er þegar kominn í Polestar og Renault en nú bætast m.a. við Volkswagen, Audi, Porche, Skoda og Benz.

Vivaldi vafrinn var fyrstur vafra í Android Automotive stýrikerfinu. Vivaldi fyrir bíla er fullhlaðinn vafri með sama viðmót og vafrinn er með í Android snjallsímum. Með því gerir Vivaldi notendum kleift að stjórna því hvernig vafrinn lítur út og hvernig hann virkar.

„Við erum stolt af því að bjóða ökumönnum upp á einstaka vafraupplifun í bílum í samstarfi við Cariad. Það er hægt að gera flest í Vivaldi vafranum. Öflug virkni og frábært notendaviðmót gerir notendum kleift að afkasta meiru á einfaldari, hraðvirkari og öruggari hátt,” segir Jon von Tetzchner, forstjóri og aðaleigandi Vivaldi, í tilkynningu.

„Ef þú ert til dæmis að hlaða bílinn þinn, eða leggja lokahönd á undirbúning fyrir vinnufund, þá getur þú á auðveldan hátt farið á netið með Vivaldi.“

Vivaldi segist bjóða upp á gagnsæi, friðhelgi og ábyrga nýsköpun. Í því felist að í vafranum eru innbyggðir eiginleikar líkt og auglýsinga- og rekjaravarnir, minnismiðar og dulkóðuð samstilling. Einnig tryggi öryggiseiginleikar að notendur fái öfluga vafraupplifun í bílum, m.a. með flipavafri og streymismöguleikum.

Sem einn af samstarfsaðilum Cariad, mun Vivaldi vafrinn verða aðgengilegur í völdum tegundum Audi bifreiða frá júlí 2023.

Vivaldi Technologies er fyrirtæki í eigu starfsmanna. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Oslo í Noregi en þróun vafrans fer líka fram á skrifstofum fyrirtækisins á Seltjarnarnesi, í Boston og Palo Alto.