Samfélagsmiðillinn X, áður þekkt sem Twitter, hefur nú byrjað að rukka nýja notendur á Nýja Sjálandi og Filippseyjum einn Bandaríkjadal á ári fyrir aðgang að miðlinum, sem hluti af tilraunaverkefni.

Með áskriftinni geta notendur tístað, endur-tístað, líkað við og svarað færslum. Nýir reikningshafar verða einnig beðnir um að staðfesta símanúmer sín á miðlinum.

Þeir sem afþakka áskriftargjaldið geta aðeins lesið færslur, horft á myndbönd og fylgst með reikningum annarra. Samfélagsmiðillinn segir markmiðið með áskriftinni vera að draga úr ruslpóstum og netumferð á vegum falsreikninga.

Elon Musk, eigandi X, sagði í síðasta mánuði að allir notendur X gætu þurft að greiða fyrir aðgang að miðlinum. Alveg frá því hann keypti Twitter fyrir ári síðan fyrir 44 milljarða dali hafa auglýsingatekjur á miðlinum minnkað.

Núverandi notendur hafa þó valkost um að greiða fyrir svokallað X Premium, þjónusta sem veitir notanda aukna þjónustu eins og að skrifa lengri færslur og aukinn sýnileika á miðlinum.