Ekkert mál hefur klofið þjóðina á undanförnum árum og eins og afstaðan til sjókvíaeldis. Minna þessar hatrömmu deilur um margt á eilífðarþrætu Bandaríkjamanna um hvort meira máli skiptir að Miller Lite sé léttur í maga eða góður á bragðið. Þessi áratugalanga deila vestanhafs hefur aukið á klofning og sundrung meðal Bandaríkjamanna og vonandi feta Íslendingar ekki sömu leið.

Týr rak augun í frétt á Ríkisútvarpinu á dögunum þar sem fjallað er um stórhuga áform um frekari uppbyggingu sjókvíaeldis á næstu áratugum. Fram kemur í fréttinni að mikil vinna stendur nú yfir við endurskoðun laga um greinina og frumvarps að vænta næsta vor. Þá er haft eftir Matvælastofnun að stofnunin ætli aðeins að afgreiða tvær leyfisumsóknir á Vestfjörðum og svo umsókn um eldi í Seyðisfirði. Vinnu við aðrar og nýrri umsóknir verður frestað þar til lagaumhverfið skýrist að sögn MAST.

***

Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum að stofnun eins og MAST lýsi því yfir að hún ætli að hætta að sinna lögbundnu hlutverki sínu þangað til einhverjar boðaðar breytingar verða gerðar á lögum! Að mati Týs er þetta enn eitt dæmið um ríkisstofnun sem er komin út á hálan ís í stjórnsýslu.

***

Umboðsmaður Alþingis hefur tekið af öll tvímæli um hvort slík stjórnsýsla fáist staðist. Í áliti hans frá árinu 1997 um mál þar sem fjármálaráðuneytið afgreiddi ekki beiðni lífeyrissjóðs um heimild um stofnun séreignardeildar kemur skýrt fram að borgarar eiga rétt á því, að stjórnvöld afgreiði mál þeirra svo fljótt sem unnt er á grundvelli þeirra laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem í gildi eru.

Umboðsmaður telur jafnframt að það sé ekki á valdi stjórnvalda að ákveða að bíða með afgreiðslu mála langtímum saman þar til settar hafa verið nýjar reglur heldur verða stjórnvöld að beita þeim réttarheimildum, sem í gildi eru á hverjum tíma við úrlausn mála. MAST þarf því að útskýra mál sitt.