Hrafnarnir hafa skemmt sér við að lesa umsagnir við frumvarp Andrésar Inga Jónssonar dyggðaskreytingameistara og þingmanns Pírata um bann við hvalveiðum.

Fjölmargir senda inn umsóknir og er mikill meirihluti þeirra af erlendu bergi brotinn. Wendy Debeck, miðaldra kanadísk kona, segir farir dóttur sinnar ekki sléttar. Hún hafi séð hvalkjöt á veitingastað í Reykjavík og það hafi verið mjög „triggerandi“ eins og krakkarnir orða það.

Trina Doll er einnig frá Kanada. Hún segir Kanadamenn komi fram við hvali eins og kóngafólk. Hún minnist ekki á að Kanadamenn veiði um þúsund hvali á ári. 

Leonardo DiCaprio hefur ekki enn skilað inn umsögn. Það hefur Jason Momoa hins vegar gert. Honum er ekki skemmt.

En skemmtilegasta umsögnin kemur frá Hafrannsóknarstofnun. Í henni er útskýrt fyrir Andrési Inga og meðflutningsmönnum að þvert á fullyrðingar þeirra framleiði hvalir ekki súrefni, ólíkt trjám og sjávargróðri svo einhver dæmi séu tekin.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.