Eitt helsta úrlausnarefni stofnana á vegum ríkisins virðist vera að vinna verkefni til þess að hafa ofan af fyrir ríkisstofnunum. Eitt sinn þótti eðlilegt að stjórnmálamenn og álitsgjafar spurðu áleitinna spurninga um mannaflsþörf ríkisstofnana og nauðsyn verkefna þeirra. Hugtök eins og möppudýr og blýantsnagarar hins opinbera voru algeng í þeirri umræðu.

En vindáttin hefur breyst. Það þykir aðför að fjármálastöðug-leika að láta sér detta í hug að hægt væri að fækka starfsfólki Seðlabankans og mannréttindi og stjórnarskrárbundin réttindi eru í huga margra ekki tryggð nema einhver ríkisstofnun sem ber viðskeytið stofa komi að málum.

Þessar hugsanir spruttu ekki í tómarúmi. Undanfarna daga hefur framganga ýmissa ríkisstofnana verið með þeim hætti að áleitnar spurningar um tilgang þeirra og erindi vakna upp. Og ekki er um einangrað fyrirbrigði að ræða.

Fréttir bárust af því í síðustu viku að Neytendastofa hefði sektað Gerði Arinbjarnardóttur um 200 þúsund krónur fyrir duldar auglýsingar á vörum úr versluninni Blush. Hún hafði sem sagt stillt upp gleðigöndrum og öðrum tólum vítt og breitt um hús sitt þegar myndir voru teknar í tengslum við sölu eignarinnar. Í framhaldinu var svo eitthvert sprell á samfélagsmiðlum.

Það sem fjölmiðlar fjölluðu ekki um í þessu samhengi var hversu fánýtt það er að heil ríkisstofnun sé að eltast við svona mál. Ekki verður með neinu móti séð að það gagnist neytendum á nokkurn hátt og ekkert er gagnið fyrir skattgreiðendur. Eins og sést á heimasíðu Neytendastofu starfa um tíu manns hjá stofnuninni og kostar rekstur hennar hátt í þrjú hundruð milljónir á ári. Af ákvörðunum stofnunarinnar að dæma virðist starfsemin fyrst og fremst ganga út á að slá á puttana á fyrirtækjum vegna duldra auglýsinga.

Gerður í Blush er samofin vörumerki sínu og hefur verið dugleg við að kynna það, þó að mörgum þætti það ugglaust feimnismál. Þarna var hún ljóslega að notfæra sér það og velgengni verslunarinnar til þess að vekja athygli á fasteignaauglýsingu – eða öfugt – og flýta sölu. Það er vel þekkt að ýmsir hafa gripið til ámóta ráða áður til þess að gera fasteignaauglýsingar sínar frábrugðnar öðrum. Hafi Neytendastofa átt eitthvert erindi við hana ætti það að vera vegna fasteignaauglýsingarinnar. Og hvað? Var með einhverju móti villt um fyrir kaupandanum? Hélt hann að það væri uppblásin dúkka í kústaskápnum og sleipiefni við eldhúskollinn?

Önnur stofnun sem erfitt er að sjá þörfina fyrir er Fjölmiðlanefnd. Þegar úrlausnir Fjölmiðlanefndar eru skoðaðar sést að mikið púður fer í að eltast við duldar auglýsingar rétt eins og Neytendastofa er að gera. Er ekki rétt að Samkeppniseftirlitið skakki leikinn í þessari skrýtnu samkeppni eftirlitsstofnananna um verkefni? Reyndar segir í lögum um fjölmiðla að Fjölmiðlanefnd sé heimilt að gera samstarfssamning við Neytendastofu um mál sem varða báðar stofnanir. Það hefur greinilega ekki verið gert og eru því tvær ríkisstofnanir að fást við hið mikla vandamál sem vörustilling í fasteignaauglýsingum og aðrar duldar auglýsingar eru.

Í Fjölmiðlanefnd sitja fjórir nefndarmenn (þó að lög segi að þeir skuli vera fimm). Eina reynsla nefndarmanna af fjölmiðlum er að Róbert H. Haraldsson var á liðinni öld meðritstjóri Skírnis. Þar eru skráðir fjórir starfsmenn, en Heiðdís Lilja Magnúsdóttir er ein um reynslu af fjölmiðlun, minnst þó af fréttamiðlun.

Þetta fólk ber ábyrgð á því að taka við aragrúa upplýsinga sem lög gera ráð fyrir að fjölmiðlar skili til nefndarinnar. Þessi upplýsingagjöf er að mestu tilgangslaus með öllu. Fjölmiðlar þurfa meðal annars að gefa Fjölmiðlanefnd upplýsingar um kyn starfsmanna, hvað þeir gera til þess að vinna gegn staðaímyndun kynjanna og gera grein fyrir birtingarmynd kynjanna í miðlun efnis. Auk þess hefur Fjölmiðlanefnd opna heimild til að kalla eftir öðru sem kann að vera nauðsynlegt að mati nefndarinnar til að mæla stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði.

Þessi upplýsingagjöf er óskiljanleg og varla dettur nokkrum í hug að hún hafi breytt nokkru um fjölmiðlun hér á landi til hins betra. Ekki er auðveldara að skilja ákvæði laganna um að allir fjölmiðlar og meira segja hlaðvörp einstaklinga þurfi líka að skrá sig hjá fjölmiðlanefnd. Af hverju þurfa praktíkerar tjáningarfrelsisins að gera grein fyrir sér og sínum skoðunum við hið opinbera?

Ágætis dæmi um fánýti fjölmiðlanefndar heyrðist í Bítinu í síðustu viku. Þá var Skúli Bragi Geirdal, starfsmaður Fjölmiðlanefndar, kallaður til viðtals. Umræðuefnið var skjátími barna, efni á netinu og samband foreldra og barna.

Það má velta fyrir sér af hverju hið opinbera er að borga starfsmanni fyrir að hafa skoðun á skjátíma barna svo dæmi sé tekið en af viðtalinu að dæma var ekki hægt að heyra að skoðanir hans á þessum málum væru frábrugðnar því sem meðalleigubílstjóri gæti sagt okkur. Af hverju er nefndin með sérfræðing í fjölmiðlalæsi? Er það í alvöru sérfræði? Hefur viðkomandi starfsmaður menntun eða reynslu til slíks? Eða er þetta bara þetta ríkisvædd kaffihúsaspeki og þægileg innivinna sem klæðist eigi að síður embættiskufli og fer með úrskurðarvald og sektarheimildir í bland við þumalskrúfur á tjáningarfrelsið.

Á þessum vettvangi var fjallað um hlaðvarpsmiðla Ríkisútvarpsins. Tilefnið var hlaðvarpsþátturinn Sjö mínútur sem fréttastofan kynnti til sögunnar. Hlaðvarpið er ekki til heiðurs framlagi Auðuns Blöndal til íslenskrar menningar heldur einhvers konar fréttaspjallþáttur. Þetta er ekki einsdæmi en RÚV hefur gegnum tíðina verið að leyfa starfsmönnum sínum að spreyta sig á hlaðvarpsgerð.

Fróðlegt væri að vita hvort Ríkisútvarpið hafi stofnað dótturfélag um þennan rekstur og hvernig reikningsskilum innan stofnunarinnar vegna hlaðvarpa sé háttað og hvaða upphæðir er þar um að ræða. Starfsmenn Rúv., sem starfa samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið og sinna hinu sértæka hlutverki þess, en hlaðvarpið er augljóslega á samkeppnismarkaði.

Í 4. gr. útvarpslaga um „aðra starfsemi“ segir: „Ríkisútvarpið skal stofna og reka dótturfélög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er á um í 3. gr.“

Í 5. gr. segir svo: „Halda skal fjárreiðum alls reksturs vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu skv. 3. gr. aðskildum frá fjárreiðum annars reksturs á vegum Ríkisútvarpsins eða dótturfélaga þess. Er Ríkisútvarpinu óheimilt að nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi.“

Þar liggur mergurinn málsins. Að vísu er hægt að halda því fram að hlaðvörp falli undir 3. gr. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, þó að þar sé ekki stafur um hlaðvörp og vísað til 2. mgr.: „Ríkisútvarpið skal framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu.“

En með sömu rökum gæti Ríkisútvarpið stofnað plötuútgáfu ef út í það er farið. Þó svo að hægt sé að benda á að hlaðvörp Ríkisútvarpsins flytji ekki auglýsingar og séu þar með ekki strangt til tekið á samkeppnismarkaði þá felur röksemdin í sér að RÚV gæti hafið útgáfu auglýsingalauss fríblaðs undir 3. gr. af því að án auglýsinga bakaði það engum samkeppni. Það heldur ekki vatni.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 24. október.