Ábyrgð gagnvart samfélagi og umhverfi, sjálfbærni. Þessir þættir eru ofarlega á blaði hjá lífeyrissjóðum sem velta fyrir sér kostum til fjárfestinga en voru það í minna mæli á árum áður. Tímarnir breytast og viðhorfin með. Lög breytast líka. Áhætta er ávallt metin og áhætta tengd sjálfbærni fyrirtækja er vaxandi áhættuþáttur sem nauðsynlegt er að taka tillit til við virðismat fyrirtækja.

Heiðar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sýnar, varpar því fram í grein í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar 29. desember 2021, að ráðamenn lífeyrissjóða hafi ekki sótt sér umboð sjóðfélaga til að fjárfesta út frá öðrum forsendum en ávöxtun og áhættu sem lög mæli fyrir um. Hann vísar til „tískustrauma" sem pressað sé á að fyrirtæki tileinki sér út fyrir þau hefðbundnu markmið að skapa verðmæti: „sjálfbærnistefnu, samfélagsstefnu, umhverfisstefnu".

Ársæll Valfells, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, veltir líka fyrir sér umboðsskyldu í tengslum við nýlega yfirlýsingu 13 íslenskra lífeyrissjóða um græn fjárfestingarverkefni í tengslum við samtökin Climate Investment Coalition. Hann lýkur grein sinni í Innherja/visir.is 17. nóvember 2021 með eftirfarandi orðum: „Kannski er lausnin einföld í þessu máli sem og í öðrum umdeildum fjárfestingum. Sjóðirnir spyrji umbjóðendur sína hvort þeir vilji að fé þeirra fari í slíkar fjárfestingar, þannig að víkkað umboð þeirra byggi að lágmarki á traustum lýðræðislegum grundvelli."

Grein Ársæls hefur orðið uppspretta líflegra og nauðsynlegra skoðanaskipta um mikilvægt málefni, þ.e. umboðsskyldu og hvernig sú skylda samrýmist áherslu á sjálfbærni fyrirtækja. Lífeyrissjóður verzlunarmanna birti á nýliðnu ári stefnu um ábyrgar fjárfestingar þar sem meðal annars kemur fram að sjóðurinn telji það styðja við ábyrga langtímaávöxtun að fjárfesta í fyrirtækjum sem byggja starfsemi sína á sjálfbærum grunni. Þannig sé stuðlað að hámörkun hagnaðar að teknu tilliti til áhættu enda er sjálfbærni einn þeirra áhættuþátta sem nauðsynlegt er að horfa til við virðismat fyrirtækja.

Hlutverk fjárfesta á borð við Lífeyrissjóð verzlunarmanna er að leggja mat á þær upplýsingar sem koma fram við eigin greiningu og þar er einmitt horft til áhættu og væntrar ávöxtunar. Hefðbundnar fjármálalegar upplýsingar duga ekki lengur til að leggja mat á framtíðarrekstur fyrirtækis og þar með virðismat þess. Nauðsynlegt er að taka einnig tillit til ýmissa sjálfbærniþátta, s.s. hvort viðkomandi fyrirtæki þurfi t.d. að kaupa kolefniskvóta og hvernig fyrirtækið er í stakk búið til að mæta auknum kostnaði við förgun úrgangs svo dæmi sé tekið. Virðismat sem horfir fram hjá slíkum áhættuþáttum er líklegt til að skila rangri niðurstöðu og þar með stuðla að rangri fjárfestingarákvörðun.

Svo er að skilja að Heiðar og Ársæll telji að áhersla á sjálfbærni hjá fjárfestum á borð við Lífeyrissjóð verzlunarmanna sé á skjön við þann tilgang lífeyrissjóða lögum samkvæmt að hámarka hagnað til lengri tíma svo unnt sé að greiða sem hæstan lífeyri. Stefna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um ábyrgar fjárfestingar lýsir öndverðri skoðun eins og áður hefur verið nefnt. Lífeyrissjóðir væru að bregðast skyldu sinni ef þeir horfðu fram hjá þeirri áhættu sem felst í sjálfbærniþáttum við mat á fjárfestingarkostum.

Svo má ekki gleyma ákvæði sem bætt var við í lög um lífeyrissjóði 2017 um að stjórn lífeyrissjóðs skuli „setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingarstefnu". Löggjafinn lét lífeyrissjóðunum eftir að skilgreina „siðferðileg viðmið" og það hafa þeir gert í orði og verki í eigin ranni og ekki síður út á við í samfélagsumræðunni. Fjárfestingarstefna sjóðanna tekur mið af samfélagslegri ábyrgð og siðferðilegum viðmiðum. Hún hefur verið rædd og samþykkt á vettvangi þeirra. Lífeyrissjóðirnir hafa því hvorki „villst af leið" né farið út fyrir umboð sitt. Síður en svo.

Innleiðing sjálfbærni við eignastýringu er þó hvorki einföld né laus við keldur sem þarf að greina eftir atvikum og krækja fram hjá. Aðferðafræði sjálfbærra fjárfestinga er margslungin og fjölmargar hliðar á henni sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar stefna er mörkuð.

Ég gef mér það að við Heiðar höfum í orði kveðnu sömu markmið, það er að segja að hámarka hagnað til lengri tíma að teknu tilliti til áhættu. Margar og ólíkar leiðir liggja hins vegar að því marki. Lífeyrissjóður verzlunarmanna telur farsælast að hafa þar sjálfbærni að leiðarljósi. Ella er hætt við að sjóðurinn væri að bregðast umboðsskyldu gagnvart sjóðfélögum sínum.

Höfundur er forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.