Í nýbirtu áliti komst umboðsmaður Alþingis fyrirsjáanlega að þeirri niðurstöðu að hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra ætti sér ekki stoð í lögum.

Óhætt er að segja að álitið sé afdráttarlaust en umboðsmaður beinir því m.a. til Hvals hf. að skoða réttarstöðu sína fyrir dómstólum.

„Þá tek ég fram að með niðurstöðu minni hef ég enga afstöðu tekið til hugsanlegra einkaréttarlegra afleiðinga hinna ólögmætu stjórnvaldsfyrirmæla. Hef ég af þeim sökum ekki heldur forsendur til að beina tilmælum til ráðherra um að leita leiða til að rétta hlut Hvals hf. Yrði það að vera verkefni dómstóla að leysa úr slíkum álitaefnum ef málið yrði lagt í þann farveg. Ég beini því þó til ráðherra að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar,“ segir í álitinu.

Eins og fram hefur komið olli þessi ákvörðun Svandísar Kristjáni Loftssyni og félögum í Hval hf. verulegu tjóni. Það sem verra er olli ákvörðunin nokkrum fjölda fólks verulegu tekjutapi, en eins og þekkt er greiðir Hvalur starfsfólki sem tekur hvalavertíð góð laun. Ætla má að Hvalur leiti réttar síns og kalli eftir að fá tjónið bætt og því má leiða líkur að því að ákvörðunin reynist ríkissjóði, og þar af leiðandi skattgreiðendum, dýrkeypt.

Þegar fólki í valdastöðum verður á kalla margir, þá sérstaklega fólk á vinstri vængnum, eftir því að viðkomandi „axli ábyrgð“ með því að segja af sér. Ef marka má Facebook-færslu Svandísar virðist hún aftur á móti ekki ætla að fylgja möntru eigin fylgismanna og segja af sér. Í skrifum hennar kemur ekki fram nein iðrun á hvalveiðibanninu og því tjóni sem það hefur og mun væntanlega leiða af sér. Þvert á móti réttlætir matvælaráðherra ákvörðunina með því að segja að lögin séu einfaldlega tímaskekkja.

„Það kemur skýrt fram í áliti umboðsmanns að hvalveiðilögin frá 1949 eru byggð á markmiðum um nýtingu hvalveiðistofnsins, og að þar sé ekki að finna skýr ákvæði um velferð dýra. Það er sú tímaskekkja sem leiðir til þess að umboðsmaður ályktar að ekki sé fyrir hendi nægilega skýr lagastoð fyrir reglugerð þeirri sem ég setti síðastliðið sumar,“ skrifar Svandís og bætir við:

„Öllum er ljóst að almenningur hefur kallað eftir skýrum ramma um velferð dýra. Það sýna þær þúsundir af tilkynningum um slæma meðferð dýra sem berast til Matvælastofnunar ár hvert og mikil og vaxandi umræða um hvort hvalveiðar eigi sér framtíð.“

Þegar nánar er að gáð má sjá að Svandís fer nokkuð frjálslega með staðreyndir. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Matvælastofnunar, sem nær yfir árið 2021, bárust stofnuninni 932 ábendingar. Um 400 þeirra snerust um dýravelferð og þar af meirihlutinn um gæludýr. Eftir því sem Týr kemst næst barst ekki ein einasta ábending um velferð hvala umrætt ár.

Svandís kveðst taka niðurstöðu umboðsmanns alvarlega „og þrátt fyrir að umboðsmaður beini ekki sérstökum tilmælum til mín þá hyggst ég beita mér fyrir breytingum þannig að þessi úreltu lög séu færð til nútímans.“

Týr bendir Svandísi góðfúslega á að í álitinu kemur skýrt fram að þar sem það ástand sem leiddi af útgáfu reglugerðarinnar sé liðið undir lok telji umboðsmaður ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til ráðherra um úrbætur þar að lútandi.

En það sem veldur Tý áhyggjum er yfirgengilegur hroki og vanvirðingin fyrir réttarríkinu sem blasa við í skrifum matvælaráðherra. Í stað þess að sína iðrun og „axla ábyrgð“ býsnast Svandís yfir gildandi lögum og kveðst einfaldlega ætla að beita sér fyrir því að þeim verði breitt eftir eigin dutlungum.

Það ætti þó ekki að koma neinum á óvart að Svandís sé ekki alltaf með lögin í sínu liði í embættisverkum sínum. Árið 2011 fékk Svandís sem umhverfisráðherra á sig hæstaréttardóm fyrir að hafa neitað að staðfesta hluta aðalskipulags Flóahrepps sem laut að Urriðafossvirkjun ári áður. Árið 2021 fékk hún svo einnig á sig dóm tengt reglugerð hennar um skylduvistun á sóttkvíarhóteli.

Týr veltir fyrir sér hve lengi máttlaus og illa samstillt ríkisstjórn ætlar að láta bjóða sér að vera með ráðherra í ríkisstjórn sem hefur ítrekað sannað að hún telji sig yfir lög hafin.