Um þessi misseri birta íslensk fyrirtæki í fyrsta sinn, sjálfbærniupplýsingar í ársuppgjörum sínum á grundvelli flokkunarreglugerðarinnar (e. Taxonomy regulation) sbr. lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar nr. 25/2023. Nú þegar hafa t.d. Össur, Festi og Marel birt umræddar upplýsingar.

Fyrir nokkrum árum fóru bankar og fjárfestar að sýna sjálfbærum fjárfestingarkostum og grænni starfsemi frekari athygli en kvörtuðu undan skorti á áreiðanlegum upplýsingum og gögnum um slíka starfsemi. Til að mynda skilgreiningum á skilyrðum um græna eða umhverfislega sjálfbæra starfsemi. Upphafleg krafa um betri sjálfbærniupplýsingar kemur frá fjárfestum og öðrum hagaðilum, en ásamt flokkunarreglugerðinni hafa fleiri stórar reglugerðir um sjálfbærnimál fyrirtækja verið settar s.s SFDR og CSRD.

Markmið flokkunarkerfisins er fyrst og fremst að samræma skilgreiningu á sjálfbærri atvinnustarfsemi með yfirgripsmiklu kerfi sem byggir á vísindalegum forsendum og er ein mikilvægasta og brýnasta aðgerðin í aðgerðaáætlun ESB á sviði sjálfbærra fjármála samkvæmt Græna sáttmálanum (e. EU Green deal).

Afl í átt að kolefnishlutleysi

En hver er hugmyndin að stofnun flokkunarkerfisins og hvernig sjá stjórnvöld í Evrópusambandinu fyrir sér að reglugerðin muni koma til með að vera nýtt sem afl í átt að kolefnishlutleysi í Evrópu fyrir árið 2050 og 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030?

Evrópusambandið telur að það þurfi viðbótarfjárfestingar upp á ríflega 700 milljarða evra árlega til að ná fyrrgreindum markmiðum. Veigamesti hluti þessara fjárfestinga mun koma frá einkafjármögnun (e. private funding). Markmið Evrópusambandsins með flokkunarkerfinu miðar að því að styðja fjárfesta við að fjármagna umskipti (e. transition) og sjálfbær verkefni sem bæta verulega umhverfisárangur starfsemi í öllum helstu atvinnugreinunum. Með því að skilgreina skýrt hvað er í samræmi við umhverfismarkmið Evrópusambandsins, hvetur flokkunarkerfið fyrirtæki til að ráðast í ný verkefni, eða uppfæra þau sem fyrir eru til að uppfylla þessi skilyrði.

Umbreytingarfjármögnun (e. transition finance) snýst um að fjármagna frekari fjárfestingar sem draga úr mikilli losun gróðurhúsalofttegunda eða öðrum neikvæðum umhverfisáhrifum sem og umskipti yfir í loftslagshlutlaust og sjálfbært hagkerfi. Þetta gæti til að mynda falið sér fjárfestingar í grænum framleiðsluaðferðum eða fjárfestingum sem stuðla að lækkandi umhverfisfótspori þar sem engin græn tækni er enn til staðar. Sömuleiðis geta aðilar á fjármálamarkaði notað flokkunarkerfið til að hanna trúverðugar grænar fjármálavörur.

Auðveldar aðgengi að fjármagni

Því til viðbótar geta fyrirtæki, ef þau vilja, notað flokkunarkerfið á áreiðanlegan hátt til að skipuleggja loftslags- og umhverfisumskipti sín og afla fjármögnunar fyrir þessi umskipti.

Mörg fyrirtæki eru mögulega með óverulegar tekjur úr grænni starfsemi en hátt hlutfall fjárfestingarútgjalda í umhverfislega sjálfbærri starfsemi (e. capex-aligned). Slík upplýsingagjöf gefur ákveðnar vísbendingar um vegferð slíkra fyrirtækja og að þau geti verið álitlegur kostur fyrir fjárfesta sem leggja áherslu á umbreytingarfjárfestingar. Nýlegar tölur benda einmitt til þess að fyrirtæki í Evrópu séu markvisst að auka útgjöld í þess háttar fjárfestingar.

Samkvæmt þessu getur flokkunarkerfið auðveldað aðgengi að fjármagni ekki aðeins þeirra fyrirtækja sem geta skilgreint sem umhverfislega sjálfbær heldur einnig til fyrirtækja með trúverðugar áætlanir eða markmið til að bæta frammistöðu sína í sjálfbærnimálum og vilja fjármagna sína vegferð í átt að sjálfbærri framtíð.

Ljóst er að brýn þörf er á umbreytingarfjármögnun til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 og ekki síst kolefnishlutleysi 2050. Markmið með setningu flokkunarkerfisins í Evrópu er að styrkja þá vegferð, að leikreglur séu skýrar, gögn og upplýsingar samanburðarhæfar og hvatning til fyrirtækja að gera starfsemi sína umhverfislega sjálfbæra. Samkvæmt þessu er ljóst að upplýsingar íslenskra fyrirtækja samkvæmt flokkunarkerfinu verða mikilvægar fyrir viðeigandi hagaðila en þess má geta að upplýsingarnar verða gerðar aðgengilegar í sjálfbærniviðmóti Creditinfo von bráðar.