Árið 2021 var metár í sölu á ofursnekkjum, en salan hefur rokið upp í faraldrinum. Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg .

Sala á ofursnekkjum jókst um 77% milli ára, en 887 ofursnekkjur seldust árið 2021. Um er að ræða tvöfalt fleiri snekkjur en árið 2019, samkvæmt skýrslu frá VesselsValue.

Eftirspurn eftir ofursnekkjum hefur aukist gríðarlega á meðal hinna ofurríku, en auðæfi 500 ríkustu aðila í heimi jókst um þúsund milljarða Bandaríkjadala árið 2021. Aukið ríkidæmi hinna ofurríku til blands við aukna eftirspurn á afþreyingu í einrúmi vegna faraldursins hefur spilað lykilhlutverk í gríðarlegri aukningu á sölu á ofursnekkjum. Til viðbótar lækkuðu vextir á árinu sem gerði fjármagn ódýrara.

Sam Tucker hjá VesselsValue segir að þó vextir hækki og eignamarkaðir fari niður, muni verð á ofursnekkjum ekki lækka, að minnsta kosti ekki á næstu mánuðum. Skortur sé á framboði af snekkjum og mörg ár taki að byggja ofursnekkjur. Í ofanálag mun áframhaldandi skortur á vinnuafli og truflanir á framboðskeðjum áfram leiða til hærra verðs á snekkjum.