Alaska Air Group hefur fengið 160 milljónir dala frá flugvélaframleiðandanum Boeing til að bæta upp fyrir tapaðan hagnað eftir atvikið með 737-9 MAX flugvél Alaska Airlines í janúar.

Flugfélagið neyddist til að kyrrsetja allar Boeing 737-9 MAX flugvélar sínar eftir að gat kom á skrokk einnar vélar í miðju flugi.

Samkvæmt fréttamiðlinum WSJ býst Alaska Airlines við frekari skaðabótum frá Boeing en hefur ekki farið nánar út í það. Fyrirtækið varaði við því í janúar að atvikið gæti minnkað tekjur flugfélagsins um 150 milljónir dala.

Eftirlitsaðilar hafa einnig þrýst á Boeing að taka á gæðaeftirlitsvandamálum innan fyrirtækisins. Boeing hefur tímabundið stöðvað alla framleiðslu nýrra Boeing 737 MAX flugvéla og tilkynnti nýlega að Dave Calhoun myndi hætta sem forstjóri í lok árs.