Bandarísk flugmálayfirvöld hafa gefið Boeing 90 daga frest til að sýna fram á nýja áætlun um gæðaeftirlit. Rúmlega tveir mánuðir eru síðan hluti af skrokk Boeing 737-flugvélar Alaska Airlines losnaði af í miðju flugi.

Samkvæmt skýrslu frá öryggis- og samgöngunefnd Bandaríkjanna (NTSB) vantaði fjóra skrúfubolta í vélina en þeir voru notaðir til að festa hlerann sem flaug af vélinni.

„Boeing verður að skuldbinda sig til að sýna fram á raunverulegar og ítarlegar umbætur. Að gera grundvallarbreytingar mun krefjast átaks frá forystu Boeing og við ætlum að passa að þeir sýni ábyrgð með hverju skrefi,“ segir Mike Whitaker, framkvæmdastjóri bandaríska flugmálaeftirlitsins.

Bandaríski flugvélaframleiðandinn hefur einnig stöðvað fyrirhugaða framleiðsluaukningu á öllum nýjum Boeing 737 flugvélum þar til yfirvöld hafa lokið við rannsókn sinni og eru sátt með gæðaeftirlit Boeing.