Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing heitir því að það muni auka gæðaeftirlit á öllum 737 Max flugvélum eftir að stórt gat rifnaði á skrokk vélar á vegum Alaska Airlines fyrr í mánuðinum.

Boeing segir að utanaðkomandi aðili yrði fenginn til að meta framleiðslu vélarinnar og mun það einnig meta birgja fyrirtækisins.

Bandarísk flugmálayfirvöld framlengdu í síðustu viku kyrrsetningu allra 737 Max flugvéla sem notast við sömu hönnun og hin umrædda vél. Yfirvöld segjast einnig ætla að framkvæma úttekt á framleiðslulínu vélarinnar og bættu við að það væru veruleg framleiðsluvandamál með 737-9 Max þotuna.

Stan Deal, forstjóri Boeing, tilkynnti ráðstafanirnar og sagði að fyrirtækið væri ekki á þeim stað sem það þyrfti að vera. Eftir að flugvélarnar voru kyrrsettar sagði Deal að Boeing myndi einnig skoða starfsemi fyrirtækisins Spirit AeroSystems, sem útvegar íhlutina sem koma að atvikinu.

„Við erum að skipuleggja viðbótarskoðun í framleiðsluferli okkar hjá Boeing og Spirit. Þessar skoðanir munu veita enn eina öryggisskoðun ofan á þær þúsundir sem eru gerðar í dag á hverri 737 flugvél,“ segir Stan.

Boeing átti í miklum erfiðleikum með að endurheimta traust almennings eftir tvö flugslys árin 2018 og 2019 sem urðu 346 manns að bana. Þá voru allar 737 Max vélar kyrrsettar í 18 mánuði en slakt eftirlit hjá bandarískum flugmálayfirvöldum var einnig kennt um.