Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, og svissneska félagið Climeworks hafa vakið athygli fjölmiðla víða um heim fyrir kolefnisföngun og -förgunarstöðina Orca sem opnaði á Hellisheiðinni í haust.

Erlendir fjölmiðlar hafa reglulega fjallað um tengsl félaganna Bill Gates, stofnanda Microsoft og fyrrum ríkasta manns heims og Elon Musk forstjóra Tesla, og núverandi handhafa nafnbótarinnar ríkasti maður heims.

Sjá einnig: Musk, Gates og Hellisheiðin

Það var þó ekki það sem var Christoph Gebald, forstjóra og meðstofnanda Climeworks, hefst í huga í viðtali við Fortune í febrúar, heldur íslenska veðrið. Honum er vorkunn enda segir Veðurstofa Ísland að tíðarfar í febrúar hafi verið með versta móti. „Mánuðurinn var óvenju illviðrasamur. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum bæði vegna hvassviðris og snjóþyngsla," segir í samantekt Veðurstofunnar.

Gebald, sem er verkfræðingur að mennt, taldi sig vita eitt og annað um veðurofsa að hafa varði stórum hluta háskólaáranna  á jöklunum við landamæri Sviss og Frakklands áður en hann kynntist íslenska vetrinum. „Að starfa í þessum aðstæðum hefur verið áskorun," segir Gebald sem tók sér tíma í að skoða veðurspánna framundan í viðtalinu sem fór fram um miðjan febrúar: Fárviðri, snjóbylur, endurtakið.

Slökkva hefur þurft á Orcu um tíma til að takast á við mest veðurofsann. Gebald segir því að líkega náist ekki að fanga og dæla niður 4.000 tonnum af koltvísýringi fyrsta starfsárið líkt og til stóð. Það jafnast á við útblástur um 850 bíla á ári.

Verkefnið hefur þó vakið athygli víða. Bill & Melinda Gates Foundation, Elon Musk, Evrópusambandið og bandaríska orkumálaráðuneytið hafa tekið þátt í að fjármagna verkefnið.Viðskiptavinirnir eru meðal annars Microsoft, Square og Boston Consulting Group. Þá geta einstaklingar gerst áskrifendur að kolefnisföngun og þannig kolefnisjafnað þann útblástur sem fólk ber sjálft ábyrgð á.

Gebald segir að verið sé að vinna að því að opna fleiri kolefnisföngunarstöðvar í öðrum löndum. Það eina sem þurfi er endurnýjanlega orku, landrými og jarðlög sem tekið geti við koltvísýringi.

Kostnaðurinn þyrfti að lækka um helming

Alþjóðaorkumálastofnunin (International Energy Agency) spáir því að við lok þessa áratugar gæti kolefnisföngun numið 85 milljón tonnum á ári, sem samsvarar um 21 þúsund Orca stöðvum.

Hins vegar segir Klaus Lackner, prófessor við Arizona háskóla og einn af frumkvöðlum kolefnisföngunartækninnar, að ólíklegt sé að tæknin nái verulegri útbreiðslu fyrir en kostnaðurinn við að fanga tonn af koltvísýringi sé kominn undir 100 dollara. Gebald segir að það gerist líklega ekki eftir fyrr en um 15 ár, nú kosti það 200 til 300 dollara. Til að komast niður í 100 dollara þurfi umtalsverða fjárfestingu og stuðning bæði frá hinu opinbera og einkageiranum. Það sama hafi verið gert í árdaga annarrar umhverfisvænnar tækni á borð við vind- og sólorkuvera og rafmagnsbíla.