Tækni Carbfix, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, við að dæla niður koltvíoxíði gæti notið stuðnings bæði frá Bill Gates, stofnandi Microsoft, og Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla að því að fram kemur í umfjöllun Bloomberg . Eins milljarðs dollara loftslagssjóður Microsoft hefur þegar tilkynnt að félagði muni fjárfesta í svissnenska félaginu Climeworks sem vinnur að verkefninu með Carbfix á Hellisheiðinni.

Carbfix hyggist einnig taka þátt í keppni sem Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, hefur komið á fót. Musk greindi frá því í síðasta mánuði að hann myndi, bjóða 100 milljón dollara verðlaun fyrir bestu tæknina til að draga úr magni koltvíoxíðs í andrúmsloftinu.

Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að Carbfix geti dælt niður koltvíoxíði fyrir um 25 dollara á tonnið á meðan það kost um 48 dollara að kaupa sambærilegt magn af losunarheimildum innan Evrópusambandsins.

Carbfix og Climeworks hafa frá árinu 2017 í sameiningu rekið tilraunastöð á Hellisheiði þar sem koltíoxíð er fangað beint úr andrúmslofti og dælt niður í jarðlög þar sem það verður að steini. Opna á stærri stöð í vor með getu upp á allt að 4.000 tonn af koltíoxíði á ári. Carbfix hefur sett sér markmið um að ná að dæla niður milljarði tonna af koltvíoxíði fyrir árið 2030. Í umfjöllun Bloomberg segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix, þó að tæknin dugi ekki ein og sér til að takast á við loftslagsvána.

Microsoft hefur gefið út að fyrirtækið stefni að því að verða kolefnisneikvætt árið 2030, það er binda meira koltvíoxíð en fyrirtækið losar og að árið 2050 hafi öll losun félagsins frá stofnun þess verið endurheimt.

Hugmyndin að Carbfix fæddist árið 2007 sem samstarfsverkefni milli Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, CNRS í Touluse og Columbia háskóla.