Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um 10,6% í 268 milljóna viðskiptum í Kauphöllinni í dag og stóðu bréf félagsins í 1.415 krónum á hlut við lokun markaða.

Hlutabréfaverð Alvotech tók dýfu eftir að tilkynnt var þann 13. apríl að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið FDA myndi ekki veita félaginu markaðsleyfi að svo stöddu.

Þá stóðu bréf félagsins í 1.915 krónum á hlut en fóru lægst niður í 1.200 krónur á hlut á mánudaginn síðastliðinn og höfðu þá lækkað um 37% frá tilkynningu FDA. Síðan hafa bréf félagsins rétt úr kútnum en eru þó um fjórðungi lægri en þegar greint var frá afstöðu FDA.

Á eftir Alvotech hækkuðu flugfélögin næst mest í aðdraganda birtingu uppgjöra. Play hækkaði um 6,35% en félagið birti uppgjör vegna afkomu fyrsta ársfjórðungs eftir lokun markaða í dag. Þá hækkaði Icelandair um 1,5% en félagið birtir einnig uppgjör síðar í dag.

Alls nam velta í kauphöllinni 4,2 milljörðum króna í 478 viðskiptum. Marel lækkaði mest eða um 2,9% og þá lækkuðu Sýn og Eik bæði um 1,7%. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1% í viðskiptum dagsins.