Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, segir að uppsögn hans fyrr í dag hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hann segir þó að það hafi verið ágreiningur milli hans og formannsins í smá tíma og að hann hafi ekki farið leynt með skoðanir sínar.

Í tilkynningu frá BÍ segir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli stjórnar og framkvæmdastjóra sem stjórnin taldi sig ekki geta leyst úr og var það niðurstaða stjórnar að framkvæmdastjóri myndi láta af störfum svo tryggja mætti viðunandi starfsskilyrði á skrifstofu félagsins. Hjálmar kannast þó ekki við þá fullyrðingu.

„Þú verður að fá formanninn til að útskýra í hverju þessi trúnaðarbrestur er fólginn, en ég get ekki sætt mig við það að hennar fjármál og skattamál varpi skugga á Blaðamannafélag Íslands. Ég er búinn að standa vörð um þetta félag og að mínu mati hefði hún átt að stíga strax til hliðar í fyrrasumar þegar þetta mál kom upp,“ segir Hjálmar.

Hann bætir þó við að Sigríður Dögg hefði getað stigið aftur inn í formannsstöðu ef ekkert hefði verið til í ásökunum um skattsvik. Hjálmar gagnrýnir hins vegar formanninn fyrir að hafa ekki viljað svara fyrirspurnum fjölmiðla um eigin fjármál á þeim tíma.

„Við getum ekki verið með íslensku veikina að ein regla gildi fyrir okkur blaðamenn og einhverjar aðrar reglur fyrir alla aðra. Það er einfaldasti hlutur í heimi fyrir allt fólk og sérstaklega fyrir blaðamenn sem í verkum sínum eiga að veita stjórnvöldum og öðrum aðhald.“

Í tilkynningu frá BÍ segir jafnframt að stjórnin hafi viljað ráða nýjan framkvæmdastjóra samhliða því að bjóða Hjálmari nýtt starf innan félagsins til að tryggja að þekking og reynsla hans gæti nýst félagsmönnum.

„Ég er fyrrum formaður félagsins og framkvæmdastjóri, hvaða annarri stöðu átti ég að gegna? Átti bara að setja mig upp á hillu sem skrautmun?“ spyr Hjálmar og bætir við að hann hafi engan áhuga á að vera þar nema að hann komi að gagni.

„Ég er 68 ára gamall og þetta snýst ekkert um mína persónu eða hagsmuni, þetta snýst bara um að tryggja það að félagið sé í góðum rekstri og sé í höndum góðs fólks og það er það ekki núna, því miður."

Hjálmar hefur verið framkvæmdastjóri félagsins síðan 2003 og hefur unnið fyrir það síðan 1989. Aðspurður um uppsögnina segist hann vera að skilja við Blaðamannafélagið á góðum nótum. Hann hafi hafnað starfslokasamningi sem honum var boðinn og segist hafa fylgt eigin samvisku. Hjálmari finnst það þó synd að geta ekki haldið áfram að aðstoða blaðamenn í þeim málum sem koma upp.

„Ég hef aldrei fundið annað en gríðarlega mikinn stuðning meðal félagsmanna. Ég hef í tvígang boðið mig fram og í bæði skiptin hef ég fengið yfirgnæfandi stuðning. Ég skila góðu búi en eignir Blaðamannafélagsins hafa tífaldast að raungildi á þeim tíma sem ég hef verið þarna. Við töpuðum til dæmis ekki krónu í hruninu, þannig að þetta hefur verið mjög farsælt.“