Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka og Kviku banka hefur lækkað um 3,5% og 2,5% í morgun en báðir bankarnir skila árs­hluta­upp­gjöri eftir lokun markaða í dag.

Gengi Arion banka, sem skilaði upp­gjöri í síðustu viku, hefur einnig lækkað um 2,5% í yfir 700 milljón króna veltu í morgun en um 46% af allri veltu í Kaup­höllinni hefur verið með bréf Arion Banka þegar þetta er skrifað.

Gengi Ís­lands­banka stendur í 100 krónum eftir tæpa 9% lækkun síðast­liðna þrjá mánuði.

Gengi Kviku hefur farið úr 17,2 krónum í 13,65 krónur sem sam­svarar um 21% lækkun á sama tíma­bili.

Sem fyrr segir er Arion Banki eini bankinn á markaði sem hefur skilað árs­hluta­upp­gjöri en af­koma Arion banka var undir væntingum.

Bankinn hagnaðist um 4,4 milljarða króna á fyrsta árs­fjórðungi 2024 saman­borið við 6,3 milljarða hagnað á sama tíma­bili í fyrra.

„Við sjáum að nokkuð hefur hægst á um­svifum í efna­hags­lífinu í ljósi hárra stýri­vaxta og er það eitt af því sem hefur á­hrif til lækkunar á þóknana­tekjum tíma­bilsins,“ sagði Benedikt Gíslason forstjóri Arion Banka í uppgjörinu.

Arð­semi eigin­fjár Arion banka var 9,1% á fyrstu þremur mánuðum ársins en til saman­burðar var arð­semi bankans 13,7% á sama tíma­bili í fyrra.

Rekstrar­tekjur Arion á fyrsta fjórðungi námu 14,5 milljörðum króna og drógust saman um 6,7% frá sama tíma­bili í fyrra. Kjarna­tekjur, þ. e. hreinar vaxta-, þóknana- og trygginga­tekjur (án rekstrar­kostnaðar trygginga­starf­seminnar), drógust saman um 2%.

Hreinar vaxta­tekjur jukust um 2,3% og námu 11,2 milljörðum. Hreinar þóknana­tekjur drógust saman um 24% milli ára og námu 3,4 milljörðum króna.