Samkeppnis- og markaðseftirlit Bretlands hefur samþykkt uppfært tilboð Microsoft um kaup á tölvuleikjaframleiðandanum Activision Blizzard en stofnunin hafði hafnað upphaflega tilboðinu sem barst í apríl á þessu ári.

Samþykki eftirlitsstofnunarinnar markar endalok tveggja ára baráttu sem tryggir stærstu yfirtöku í sögu tölvuleikjaiðnaðarins frá upphafi.

Þrátt fyrir samþykki stofnunarinnar þá var hún mjög gagnrýnin á framferði Microsoft og segir Sarah Cardell, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, að fyrirtæki og ráðgjafar ættu ekki að vera í neinum vafa um að tæknin sem Microsoft beiti sé engin leið til að eiga samskipti við eftirlitsstofnunina.

„Microsoft hafði tækifæri til að endurskipuleggja á meðan fyrsti hluti rannsóknarinnar stóð yfir en í stað þess hélt fyrirtækið áfram að krefjast úrlausna sem við sögðum þeim að myndi ekki ganga upp. Að draga málsmeðferðina á langinn á þennan hátt gerir ekkert annað en að sóa tíma og peningum,“ segir Sarah.

Samkvæmt endurgerðum samning mun Microsoft afhenda franska tölvuleikjaútgefandanum Ubisoft réttinn til að dreifa leikjum Activision. Microsoft mun þó enn stjórna leikjum eins og Call of Duty, World of Warcraft og Candy Crush en þeir leikir hafa skilað fyrirtækinu háum tekjum.

Upphaflegt tilboð Microsoft á Acitivison klauf hið alþjóðlega samfélag eftirlitsaðila en til þess að samningurinn gæti farið í gegn þurftu eftirlitsaðilar í Bretlandi, ESB og Bandaríkjunum að samþykkja samninginn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti kaupin á þeim grundvelli að með samningnum hafi Microsoft lofað evrópskum neytendum aðgangi að tölvuleikjum Activision í gegnum streymisþjónustu fyrirtækisins.

Samkeppnis- og markaðseftirlit Bretlands stöðvaði hins vegar samninginn í apríl og lýsti áhyggjum yfir því að yfirtakan myndi draga úr nýsköpun og leikjavali fyrir notendur.