Hlutabréfaverð Origo er á mikilli siglingu þessa dagana og stóð í 71,5 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar í dag, það hæsta í sögu félagsins, eftir 2,1% hækkun í viðskiptum dagsins. Gengi hugbúnaðarfyrirtækisins hefur alls hækkað um 79% í ár og um 261% frá því í mars í fyrra. Markaðsvirði Origo er nú komið upp í 31,1 milljarð króna sem er fjórfalt meira en bókfært eigið fé í lok þriðja fjórðungs. Á aðalmarkaði Kauphallarinnar er umrætt hlutfall (V/I eða P/B hlutfall) einungis hærra hjá Marel.
Mesta veltan á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 1,9% í 1,8 milljarða viðskiptum. Gengi félagsins tók að hækka eftir hádegi í dag en Samkeppniseftirlitið tilkynnti um ellefuleytið að samruni Marels og Völku hafi verið heimilaður.
Fimm félög birtu uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Gengi Festar , sem skilaði 2,3 milljarða hagnaði á þriðja ársfjórðungi, hækkaði um 0,9% í 1,1 milljarðs veltu og jafnaði fyrra met í 220 krónum á hlut. Skeljungur hækkaði einnig um 1,4%, þó aðeins í 10 milljóna veltu en gengi hinna þriggja félaganna sem birtu uppgjör í gær lækkuðu. Þar af lækkaði gengi Sjóvár mest eða um 1,5% en tryggingafélagið skilaði 2,2 milljarða hagnaði á fjórðungnum.