Hægara er sagt en gert fyrir ný fyrirtæki að gera sig gildandi í fjarskiptabransanum í Rómönsku-Ameríku, að því er kemur fram í frétt Bloomberg. Í fréttinni eru vandræði síleska fjarskiptafélagsins WOM, sem er í eigu fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar Novator, nefnd sem dæmi en eins og Viðskiptablaðið greindi frá nýverið hefur félagið sótt um greiðsluskjól í Bandaríkjunum (e. Chapter 11 bankruptcy protection) eftir að því mistókst að endurfjármagna 348 milljóna dala skuld sem er á gjalddaga í nóvember næstkomandi.

Í frétt Bloomberg er farið yfir að sumir ríkustu fjárfesta veraldar hafi fjárfest milljörðum dala í fjarskiptafélög í Rómönsku-Ameríku og veðjað á að félög þeirra geti náð stórri markaðshlutdeild á skömmum tíma með því að bjóða neytendum hagstæðari verð en samkeppnisaðilar. Aftur á móti hafi óvægin samkeppni og kostnaður við að halda í við hraðar tæknibreytingar gert það að verkum að fyrirtækin sitji uppi með miklar skuldir sem þau geta ekki staðið í skilum af.

Eins og fyrr segir eru ófarir WOM nefndar sem dæmi um hve erfitt sé að reka arðbært fyrirtæki í geira þar sem stórlaxar á borð við Carlos Slim, með félagið America Movil BAS, John C. Malone, með félagið Liberty Media Corp. og Telefonica SA.

Samkvæmt Bloomberg eru sjóðstjórar að veðja á að fjárhagserfiðleikar WOM muni gagnast ClaroVTR, sem er síleskt samstarfsfélag (e. joint venture) fjarskiptafélaga þeirra Slim og Malone.

Skuldabréfaútgefendur rambi á barmi gjaldþrots

Að sama skapi bendir Bloomberg á að staða lánamarkaða sé erfið í dag. Til að bæta gráu ofan á svart gefi verð skuldabréfa að andvirði u.þ.b. 2,7 milljarða dala, sem gefin hafa verið út af fjarskiptafélögum í Rómönsku-Ameríku, til kynna að útgefendur umræddra skuldabréfa rambi á barmi gjaldþrots.

WOM er ekki eina fjárskiptafélagið syðra sem er í vandræðum en bent er á að Totalplay Telecomunicaciones SA, mexíkóskt fjarskiptafélag í eigu Ricardo Salinas, hafi einnig mistekist að tryggja sér lánsfjármögnun til að endurfjármagna skuld sem er á gjalddaga á næsta ári. Að sama skapi bendir Bloomberg á Digicel, karabískt fjarskiptafélag írska milljarðamæringsins Denis O‘Brien, sem annað dæmi um félag sem hefur lent í fjárhagsvandræðum.

Með 25% markaðshlutdeild í Síle

Líkt og fyrr segir sótti WOM um greiðsluskjól í kjölfar þess að hafa ekki tekist að endurfjármagna 348 milljóna dala, eða sem nemur um 49 milljörðum króna, skuld sem er á gjalddaga í nóvember. Félagið tilkynnti samhliða þessu að það hefði tryggt sér 200 milljóna dala fjármögnunarlínu frá bankanum JPMorgan Chase.

Greiðsluskjólið mun gera félaginu kleift að halda rekstri sínum gangandi á meðan það vinnur að samkomulagi við kröfuhafa. Skuldir WOM námu samtals 1,8 milljörðum dala í árslok 2023.

„Upphaf þessa ferlis gefur ekki til kynna eignasölu eða gjaldþrot hjá félaginu. Það gefur WOM hins vegar tækifæri til að vinna með kröfuhöfum og öðrum haghöfum, leita að nýjum fjármögnunarleiðum og styrkja fjárhagsstöðuna til að styðja við rekstrarhæfi til lengri tíma,“ segir í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í byrjun mánaðar.

WOM rakti ákvörðun sína til nokkurra þátta, þar á meðal hás vaxtastigs, krefjandi lánamarkaða og áðurnefnds gjalddaga í nóvember á skuldabréfum upp á 348 milljónir dala, sem hafi neikvæð áhrif á lausafjárstöðu fjarskiptafélagsins til skemmri tíma.

Novator kom WOM á laggirnar í Síle árið 2015 eftir að hafa keypt Nextel, fremur smátt fjarskiptafyrirtæki þar í landi með liðlega 1% markaðshlutdeild. Vel gekk að byggja upp félagið með sambærilegum hætti og Novator hafði gert áður með Play í Póllandi og Nova á Íslandi. WOM Chile er í dag með yfir 8 milljónir viðskiptavina og um 25% markaðshlutdeild.

Lausafjárstaða félagsins hefur hins vegar versnað á undanförnum árum. Það skýrist m.a. af ofangreindum þáttum auk uppbyggingar 5G-nets. WOM hefur ráðist í hagræðingaraðgerðir til að draga úr rekstrarkostnaði. Félagið hefur sagt upp vel á þriðja hundrað starfsmönnum síðustu mánuði.