Hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 hefur lækkað um 1% það sem af er degi. Það stefnir því í að vísitalan, sem nær utan um hlutabréfaverð 600 fyrirtækja í sautján Evrópuríkjum, lækki fimmta viðskiptadaginn í röð. Stoxx Europe 600 hefur lækkað um 21% í ár.

Í umfjöllun Reuters segir að hækkun á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamörkuðum víða um heim, m.a. vegna aukins ótta um mögulegan efnahagssamdrátt, sé meðal skýringa á lækkunum á hlutabréfum.

Ávöxtunarkrafa á tíu ára bandarískum ríkisskuldabréfum hefur hækkað undanfarnar vikur og nálgast nú 4%.

Sjá einnig: Englandsbanki tekur U-beygju

Þá hefur krafan á breskum ríkisbréfum hækkað undanfarna daga, m.a. vegna áhyggja um að lífeyrissjóðir neyðist til að selja bréfin sín, og nálgast nú sama stig og þegar Englandsbanki tilkynnti í lok síðasta mánaðar um að hann myndi hefja kaup á löngum ríkisskuldabréfum. Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, tilkynnti í gær um að hann myndi víkka út skuldabréfakaup sín til að koma í veg fyrir brunasölu hjá lífeyrissjóðum.

Íslenska úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,5% frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Marel hefur lækkað mest af félögum Kaphallarinnar eða um 3,2%, þó aðeins í 54 milljóna króna veltu.