Stærstu vestrænu bankarnir sem halda enn úti starfsemi í Rússlandi greiddu yfir 800 milljónir evra, eða yfir 120 milljarða króna, í skatta til rússneskra stjórnvalda í fyrra samkvæmt úttekt Financial Times.

Fjárhæðin er um fjórum sinnum meira en á síðasta rekstrarárinu fyrir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022.

Sjö stærstu evrópsku bankarnir, miðað við eignir í Rússlandi - Raiffeisen Bank International, UniCredit, ING, Commerzbank, Deutsche Bank, Intesa Sanpaolo and OTP – högnuðust samtals um meira en 3 milljarða evra árið 2023. Meira en helmingur þessarar samanlögðu skattgreiðslu í Rússlandi má rekja til austurríska bankans Raiffeisen Bank International.

Í umfjöllun FT segir að hagnaður bankanna hafi verið um þrefalt hærri en árið 2021. Það megi að stórum hluta rekja til eigna og sjóða sem bankarnir geta ekki flutt frá Rússlandi.

Þessi hagnaðaraukning leiddi til þess að evrópsku bankarnir greiddu um 800 milljónir evra í skatta í Rússlandi árið 2023 samanborið við rúmlega 200 milljónir evra árið 2021. Skattgreiðsla evrópsku bankanna samsvarar um 0,4% af áætluðum skatttekjum rússneskra stjórnvalda í ár sem tengjast ekki orkumálum.

Til viðbótar greiddu bandarísku bankarnir Citigroup og JPMorgan samtals um 60 milljónir dala í skatta í Rússlandi árið 2023. Þar af greiddi Citigroup um 53 milljónir dala í skatta og JPMorgan um 6,8 milljónir dala.