Heilbrigðislausnir Origo verða frá mánaðarmótum að sjálfstæðu félagi sem hefur fengið nafnið Helix en nafnið er dregið af einni merkustu uppgötvun læknavísindanna, DNA sameindinni.

Í tilkynningu segir að markmið Helix sé að flétta saman tækni, hugvit og innsæi til að bæta líf þeirra sem þiggja og veita heilbrigðisþjónustu.

Í Covid-faraldrinum þróuðu heilbrigðislausnir Origo, þar á meðal fyrsta rafræna bólusetningarvottorðið í samstarfi við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO), unnu náið með Landlæknisembættinu að sýnatökum bæði á landamærum Íslands og á heilbrigðisstofnunum og að hugbúnaði sem sá um utanumhald fyrir Covid-19 bólusetningar.

Arna Harðardóttir tók við stöðu framkvæmdarstjóra nýja félagsins og mun leiða fyrirtækið áfram, en hún hefur átt stóran þátt í stefnumótun og breytingarferli sviðsins undanfarna mánuði. Hún hóf störf hjá Origo í nóvember 2020 og leiddi sölu- og markaðsstýringu á sviði heilbrigðislausna áður en hún tók við stöðu framkvæmdarstjóra Helix.

„Tækifærin innan heilbrigðis- og velferðartækni eru óteljandi og mikilvægt að halda áfram þeirri góðu vinnu sem hefur átt sér stað síðustu ár. Ísland er í algjörri sérstöðu þegar kemur að innleiðingu á tæknilausnum innan heilbrigðiskerfisins og mikilvægt að nýta það tækifæri vel,“ segir Arna.

Hið nýja félag er að fullu í eigu Origo hf. en allir núverandi starfsmenn heilbrigðislausna flytjast yfir í hið nýja félag Helix. Því verður engin breyting á tengiliðum eða þeirri þjónustu sem Origo hefur veitt á því sviði.