Heilbrigðislausnir Origo hafa ráðið til sín 8 nýja starfsmenn það sem af er ári. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá þessu segir að ráðningarnar séu liður í aukinni áherslu Origo á sviðinu sem nú sé orðið sjálfstætt innan fyrirtækisins.

„Markmið heilbrigðislausna er að auðvelda störf heilbrigðisstarfsfólks og bæta upplifun skjólstæðinga þeirra. Heilbrigðislausnir hafa verið leiðandi í þróun á fjölbreyttum lausnum síðustu 30 ár og í stefnumótun sviðsins er aukin áhersla lögð á að þróa áfram nýjar og traustar lausnir. Mikil reynsla og sérfræðiþekking í gerð hugbúnaðarlausna fyrir heilbrigðiskerfið er innan sviðsins en þar starfa yfir 60 sérfræðingar með fjölbreyttan bakgrunn og munu þessar nýju ráðningar styrkja vinnu heilbrigðislausna enn frekar,“ segir í tilkynningu.

Starfsmennirnir átta sem gengið hafa til liðs við heilbrigðislausnir Origo á árinu:

Guðfinna Ýr Róbertsdóttir var ráðinn inn í byrjun árs sem viðmótshönnuður og heldur hún utan um hönnunarteymi heilbrigðislausna. Guðfinna Ýr er með BA í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og MA í stafrænni hönnun frá Oakville í Kanada. Hún er með yfir 20 ára reynslu af hönnun bæði á hugbúnaði og fyrir auglýsingastofur, ásamt að hafa unnið fjölda verðlauna í gegnum árin fyrir hönnun sína.

Þorkell Máni Pétursson var ráðinn inn sem hugbúnaðarprófari og kemur frá Side Kick Health. Þorkell Máni er með BA próf í sálfræði og heimspeki og M.Sc. í umhverfisfræði. Hann hefur mikla reynslu af hugbúnaðarprófun og þekkir umhverfi heilbrigðislausna vel.

Hanna Rut Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin viðskiptastjóri heilbrigðislausna og er með B.Sc í hjúkrunarfræði. Hún hefur reynslu af störfum bæði innan Landspítalans og heilsugæslunnar.

Arnar Ólafsson og Fannar Hrafn Haraldsson voru ráðnir inn sem hugbúnaðarsérfræðingar í fjölbreytt störf innan sviðsins. Arnar útskrifaðist í vor úr tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og skrifaði lokaverkefni sitt í samstarfi við Origo. Fannar er að klára B.S gráðu í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og starfar hjá heilbrigðislausnum samhliða námi.

Moaz Salaheldin Mahmoud er búsettur á Eskifirði og er með 20 ára reynslu af forritun í fjölbreyttum verkefnum.

Janko Mirkovic og Damjan Vasojevic komu til liðs við skrifstofu Origo í Serbíu og styrkja heilbrigðislausna teymið þar með sinni reynslu og þekkingu.