Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, lætur af störfum þegar aðalfundur bankans fer fram í næsta mánuði þar sem hún hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bankaráði. Þá mun Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs, ekki heldur gefa kost á sér.

Frá þessu er greint í tilkynningu en aðalfundur fer fram þann 20. mars næstkomandi. Sjö einstaklingar sitja í bankaráði og tveir eru varamenn.

Berglind hefur setið í bankaráði frá árinu 2016 en Helga Björk hefur setið í bankaráði frá árinu 2013 og verið formaður þess frá árinu 2016.

„Ég hef setið í stjórn Landsbankans í 11 ár. Þar hef ég fengið tækifæri til að starfa með frábæru fólki og taka þátt í mörgum krefjandi, mikilvægum og skemmtilegum verkefnum, s.s. umbreytingum á fjárhagsskipan bankans, umbótum á stjórnarháttum, framþróun í upplýsingatækni og stafrænni þjónustu og síðast en ekki síst móta stefnuna fyrir Landsbanka nýrra tíma,“ segir Helga Björk.

„Ég kveð Landsbankann með hlýhug og stolti og veit að hans bíður farsæl framtíð.“