Hlutabréf Nike hækkuðu í framvirkum samningum eftir að nýjustu afkomutölur fyrirtækisins sýndu fram á betri árangur en það sem Wall Street hafði áður spáð fyrir.

Hagnaður Nike nam 1,45 milljörðum dala á seinustu tveimur ársfjórðungum, sem er lítilsháttar hækkun frá því á sama tímabili í fyrra. Markaðssérfræðingar höfðu hins vegar spáð fyrir 1,17 milljarða hagnaði og eru tölurnar því ágætar fréttir fyrir skó- og fatnaðarrisann.

Tekjur fyrirtækisins námu alls 12,9 milljörðum dala, samanborið við 12,69 milljarða í fyrra. Tekjur voru nokkurn veginn í samræmi við tekjuspá sérfræðinga sem áætluðu að þær yrðu í kringum 13 milljarðar.

Þess má geta að tekjur í Kína jukust um 12% og markar það annan ársfjórðung í röð með tveggja talna vexti. Nike hefur auk þess tilkynnt fjárfestum um aukna markaðshlutdeild.

Hlutabréf Nike voru um 9% hærri í framvirkum samningum og situr gengi fyrirtækisins í 98 dölum á hvern hlut.

„Við erum að ná góðum árangri á öllum sviðum viðskipta en við gerum ráð fyrir að geta gert meira. Til dæmis höfum við á undanförnum árum komið með nýjar vörur og fleiri nýjungar í hlaupavörum. Við þurfum hins vegar að mynda sterkari neytendatengsl við hversdagshlaupara og stækka nýjungar okkar á skilvirkari hátt,“ segir John Donahue, forseti og forstjóri Nike.