Vítt peninga­magn jókst um 9% milli ára á fyrsta fjórðungi ársins sem er svipaður vöxtur og hefur verið á síðustu árum, sam­kvæmt Peninga­málum Seðla­banka Ís­lands sem kom út í morgun.

Inn­lán heimila hafa á­fram aukist af krafti og hefur árs­vöxtur inn­lána þeirra verið nærri 15% allt frá síðasta hausti.

Sam­kvæmt Peninga­málum hefur sparnaður heimila aukist á ný og einka­neysla gefið eftir.

„Á sama tíma hafa laun hækkað á­fram auk þess sem inn­láns­vextir hafa hækkað mikið á síðustu tveimur árum. Inn­lán fyrir­tækja hafa einnig aukist þótt hægt hafi á árs­vexti þeirra í takt við hægari vöxt efna­hags­um­svifa. Hann var tæp­lega 7% á fyrsta fjórðungi ársins en var um 25% að meðal­tali árið 2022,“ segir í Peninga­málum Seðla­bankans.

Fyrirtæki líklegast að ganga á

Þá hafa kostnaðar­hækkanir verið miklar undan­farið og segir Seðla­bankinn því lík­legt að fyrir­tæki hafi þurft að ganga á laust fé.

„Dregið hefur jafnt og þétt úr árs­vexti út­lána lána­kerfisins á síðast­liðnu ári og nam vöxturinn rúm­lega 6% á fyrsta fjórðungi ársins. Hærri vextir og hert lána­þega­skil­yrði halda því á­fram að draga úr eftir­spurn heimila og fyrir­tækja eftir láns­fé á sama tíma og hægt hefur á efna­hags­um­svifum. Árs­vöxtur út­lána lána­kerfisins til heimila var rúm 6% í mars og hefur dregið úr vextinum allt frá upp­hafi síðasta árs.“

Bankarnir búast við meiri eftir­spurn eftir fyrir­tækja­lánum

Sam­kvæmt Peninga­málum minnkuðu hrein ný út­lán til heimila framan af síðasta ári en tóku að aukast á ný um mitt árið sam­hliða aukinni veltu á fast­eigna­markaði.

Ný lán hafa að mestu leyti verið verð­tryggð á meðan upp­greiðslur ó­verð­tryggðra lána hafa haldið á­fram.

Sam­kvæmt út­lána­könnun Seðla­bankans frá því í apríl hafa við­skipta­bankarnir þó greint lítil­lega minni eftir­spurn eftir í­búða­lánum á síðustu mánuðum og gera þeir ráð fyrir að hún minnki lítil­lega á­fram á komandi mánuðum.

„Hratt hefur dregið úr árs­vexti út­lána lána­kerfisins til fyrir­tækja frá upp­hafi síðasta árs þegar hann var um 16% en í mars sl. var hann kominn í 6,5%. Lán til fast­eigna­fé­laga og bygginga­geirans aukast enn milli ára en lán til annarra at­vinnu­greina hafa minnkað eða staðið í stað.“

Seðla­bankinn bendir á að sé litið fram hjá þessum at­vinnu­geirum hafa út­lán dregist saman milli ára frá því í ágúst í fyrra. Mikil um­svif á fast­eigna­markaði hafa því staðið undir út­lána­vextinum á síðustu misserum.

„Þá virðast fast­eigna­fé­lögin sækja aukinn hluta fjár­mögnunar til við­skipta­banka um þessar mundir en út­gáfa markaðs­skulda­bréfa hefur þó aukist á allra síðustu mánuðum og vegið á móti minnkandi vexti út­lána­stofnsins. Líkt og hjá heimilum minnkuðu hrein ný út­lán til fyrir­tækja framan af síðasta ári en tóku að aukast á ný sl. haust og hafa verið að mestu verð­tryggð frá miðju síðasta ári. Sam­kvæmt út­lána­könnuninni búast við­skipta­bankarnir við því að eftir­spurn eftir fyrir­tækja­lánum aukist á næsta hálfa ári.“