Flugáætlun hefur þá þróast hratt á síðustu árum þar sem sífellt fleiri áfangastaðir standa til boða að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair. Árið 2013 voru farþegar Icelandair 2,2 milljónir og fóru mest upp í 4,4 milljónir árið 2019. Útlit er fyrir að Icelandair fari upp í um 4,5 milljónir farþega í ár.

„Núna erum við með stærstu flugáætlun í sögu félagsins og höfum aldrei verið með fleiri áfangastaði, 52, og 410 brottfarir frá Keflavík á viku yfir háönnina. Sem dæmi árið 2013 þá voru þetta 33 áfangastaðir og 218 brottfarir. Þetta hefur í rauninni tvöfaldast síðan þá og aukningin er enn meiri ef við förum lengra aftur í tímann,“ segir Bogi.

Nokkur breyting hefur einnig orðið á samsetningu ferðamanna sem koma til Íslands en í dag er Norður-Ameríka stærsti markaður Icelandair.

„Þar erum við með áhersluna, þó að allir markaðir eins og í Evrópu séu líka mikilvægir, en eftirspurnin er mest frá Norður-Ameríku. Við höfum verið að auka framboðið þangað og munum halda því áfram á næsta ári. En það er kannski þetta sem er það góða við Ísland sem áfangastað og okkar leiðakerfi, að við getum breytt fókus eftir því hvernig vindarnir blása í heiminum og á mörkuðum.“

Með sjálfbærnina að leiðarljósi

Þrátt fyrir áskoranir í alþjóðakerfinu stefnir Icelandair ótrautt áfram á komandi árum. Flug og ferðaþjónusta séu gríðarlega mikilvægar greinar fyrir íslenska hagkerfið og mikilvægt að þær vaxi og dafni en horfa þurfi til ýmissa þátta í því samhengi.

„Við megum ekki horfa aðeins til þess að koma eins mörgum ferðamönnum hingað inn á sem stystum tíma, við verðum að tryggja að upplifun ferðamanna sé alltaf góð og hún verður það ekkert ef öllum er hrúgað á sömu náttúruperluna á sama tíma. Við verðum að vera með stefnu og framfylgja henni þannig að þetta sé sjálfbært hjá okkur,“ segir Bogi.

„Eitt af okkar meginmarkmiðum er að skila verðmætum til  þjóðarbúsins á sjálfbæran hátt og til þess þurfum við að horfa til sjálfbærni hvað alla okkar starfsemi varðar.“

Fjallað er um málið afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.