Einka­neysla jókst um 0,3% milli fjórðunga á síðasta árs­fjórðungi í fyrra eftir að hafa dregist saman milli fjórðunga á fyrstu þremur fjórðungum ársins, sam­kvæmt ný­út­gefnum Peninga­málum Seðla­banka Ís­lands.

Segir í riti bankans að af þeim sökum dró tals­vert úr árs­vexti einka­neyslu er leið á árið og á síðasta fjórðungi ársins dróst hún saman um 2,3% milli ára.

„Það er heldur meiri sam­dráttur en gert hafði verið ráð fyrir í febrúar­spá bankans. Þrátt fyrir það endaði vöxtur einka­neyslu á árinu öllu í 0,5% eins og gert var ráð fyrir í febrúar. Fyrstu þrír fjórðungar ársins reyndust kröftugri en fyrri tölur Hag­stofu Ís­lands gáfu til kynna en á móti vó að fjórði árs­fjórðungur var lakari en búist var við,“ segir í Peningamálum.

Þessi litli vöxtur einka­neyslu í fyrra er mikill við­snúningur frá árunum 2021-2022 þegar einka­neysla jókst um 7,6% að meðal­tali á ári.

„Er þetta minnsti vöxtur einka­neyslu á einu ári síðan árið 2010 ef far­sóttar­árið 2020 er undan­skilið. Eins og sést á mynd III-2 endur­speglar við­snúningurinn fyrst og fremst mikinn sam­drátt í vexti kaupa á þjónustu en einnig hægari vöxt kaupa á hálf­varan­legum neyslu­vörum og sam­drátt í kaupum á varan­legum neyslu­vörum,” segir í Peninga­málum.

Sparnaðar­hlut­fall heimila tók að hækka á ný er leið á síðasta ár í takt við hækkandi raun­vexti og aukna svart­sýni um stöðu efna­hags­mála. Þá bendir endur­skoðun á fyrri tölum þjóð­hags­reikninga til þess að sparnaðar­hlut­fallið hafi verið heldur hærra undan­farin ár en áður var talið.

Samkvæmt Seðlabankanum er talið líklegt að vöxtur einkaneyslu sæki aftur í sig veðrið á næsta ári og verði 2,1% og aukist enn frekar í 2,7% árið 2026.

Mun þetta þó vera lakari horfur en gert var ráð fyrir í febrúar enda er nú spáð heldur hægari kaupmáttarvexti en þá var búist við.

Samkvæmt grunnspá bankans helst sparnaðarhlutfall heimila tiltölulega stöðugt út spátímann í ríflega 10% af ráðstöfunartekjum.